„Ekki fræðilegur möguleiki“ að komast í Höllina

Kynnirinn James 'Dash' Patterson og ríkjandi heimsmeistari í League of …
Kynnirinn James 'Dash' Patterson og ríkjandi heimsmeistari í League of Legends Heo 'ShowMaker' Su. Ljósmynd/Ariel West

Laugardalshöllin er lokuð almenningi vegna rafíþróttamóts sem hefst þar á morgun. „Það er ekki fræðilegur möguleiki,“ sagði Aron Ólafsson, framkvæmdarstjóri Rafíþróttasamtök Íslands í samtali við mbl.is þegar hann var spurður um aðgengi að höllinni. „Hvort sem að þú værir ráðherra eða ekki þá fengir þú ekki inn.“

Ástæðan fyrir lokuninni mun vera strangar sóttvarnaraðgerðir Riot Games sem halda mótið. „Þeir eru með sín eigin Covid-test sem að þarf að fara í. Svo er ekki búið að leyfa á myndatökur þarna inni. Þegar ég fer niður eftir þá er síminn tekinn af mér.“

Eins og fjallað hefur verið um áður verður rafíþróttamótið Mid-Season Invitational í League of Legends haldið hér á landi í ár. Mótið hefst klukkan eitt á morgun með leik núverandi heimsmeistara Damwon Kia frá Suður-Kóreu gegn bandaríska liðinu Cloud9 en meðal þeirra ellefu liða sem keppa um bikarinn er einnig evrópska liðið MAD Lions.

Um fjögur hundruð manns hafa komið til landsins vegna mótsins og hefur öllu verið tjaldað til í sóttvarnaraðgerðum til þess að tryggja að Covid-19 komi ekki í veg fyrir að mótið verði haldið. Sóttvarnaaðgerðir hafa þó þegar haft áhrif á mótið en víetnamska liðið GAM Esports hefur dregið sig úr keppninni vegna sóttvarnaaðgerða í Víetnam og vandræða vegna landvistarleyfis á Íslandi.

Hægt er að fylgjast með mótinu á heimasíðu rafíþróttardeildar Riot Games og á Twitch- og Youtube-síðum fyrirtækisins.

MSI-bikarinn sem keppt er um.
MSI-bikarinn sem keppt er um. Ljósmynd/Ariel West
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert