Nær bálið til sálarinnar?

Tveir líkbrennsluofnar hafa verið í landinu frá árinu 1948, báðir …
Tveir líkbrennsluofnar hafa verið í landinu frá árinu 1948, báðir í Fossvogi. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Jeg hefi fengið margar upplýsingar frá mönnum, sem hafa látið brenna líkama sinn og allir hafa þeir undantekningarlaust bætt þessu við: „Segið öllum, sem þið náið til, að láta ekki brenna sig, því að það er hinn háskalegasti misskilningur, að það geri ekkert til. Hinn jarðneski líkami mannsins er alt of dýrmætur til þess að svo illa sje með hann farið eftir viðskilnað sálarinnar.““

Þannig komst Sigurjón Pjetursson í Álafossi að orði í bréfi sem hann sendi Morgunblaðinu sumarið 1941. Tilefnið var nýleg samþykkt aðalfundar Eimskipafjelags Íslands h.f. um styrk til bálstofu hér á landi og nokkur blaðaskrif um málið í framhaldinu.

Sigurjón hélt áfram að vitna í heimildarmenn sína fyrir handan: „Þótt læknar segi að maður sje skilinn við þá er sannleikurinn sá, að hinn raunverulegi viðskilnaður tekur oft miklu lengri tíma en menn ætla, eða geta haft hugmynd um. Það er hreint og beint ofbeldi að flýta viðskilnaðinum með eldi, og það veldur hinum andlega líkama í flestum tilfellum svo hræðilegum hörmungum, að slíkt læknast eigi nema á óralöngum tíma.“

Ekki til bóta fyrir sálina

Nokkrum dögum síðar svaraði Kristinn Daníelsson bréfi þessu á síðum Morgunblaðsins og þótti fyrir því enda væru þeir Sigurjón Pjetursson vinir. Kristinn var á því að Sigurjón væri aldrei þessu vant að reyna að spilla fyrir góðu máli, sem reyndar væri árangurslaust, því að næg sönnun fyrir því, að Íslendingar þyrftu og vildu bálstofu, og það sem fyrst, væri það, að málið væri nú komið svo langt, að það ætti vísan framgang, „og enn nýr vottur um það er gjöf Eimskipafjelagsins, sem vel fór á; skip þess munu hafa flutt, flest líkin, sem send hafa verið utan til brenslu, vegna þess menningarleysis, að engin bálstofa var hjer til.“

Kristinn gerði athugasemd við mál Sigurjóns þess efnis að engin rök hefðu verið færð fyrir því að líkbrennsla væri til bóta fyrir sálina. „Þar er þá jafnt á komið með greftrunina; hún er það ekki fremur. Líkaminn er ekki lengur bústaður og verkfæri sálarinnar.“

Nánar er fjallað um þessa áttatíu ára ritdeilu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert