„Ég hef ekki undan neinu að kvarta“

Jakobína Valdimarsdóttir á heimili sínu á Sauðárkróki.
Jakobína Valdimarsdóttir á heimili sínu á Sauðárkróki. Ljósmynd/Ólöf Ösp Sverrisdóttir

„Þetta er sannarlega mikill dagur. Ég hef ekki undan neinu að kvarta,“ sagði Jakobína Valdimarsdóttir á Sauðárkróki, alltaf kölluð Bína, sem fagnaði í gær 100 ára afmæli sínu. Er hún elsti núlifandi Skagfirðingurinn og samkvæmt vefnum Langlífi er hún 25. elsti Skagfirðingurinn.

Samkomutakmarkanir í kórónuveirufaraldri höfðu mikil áhrif á tímamótin í gær því öllu veislustandi með fjölskyldunni var slegið á frest til betri tíma. Það er sannarlega ástæða til að fagna aldarafmæli, ekki síst þar sem Bína er við ágæta heilsu en hún býr enn á heimili sínu við Skagfirðingabraut á Sauðárkróki.

Heyrnin er þó farin að daprast og baðst hún undan löngu viðtali, gaf blaðamanni þó leyfi til að birta fregn um tímamótin.

Hátt í 70 afkomendur

Bína fæddist á Sauðárkróki 2. ágúst 1921, og ólst þar upp, næstyngst níu systkina. Foreldrar hennar voru Valdimar Jónsson og Guðrún Ólafía Frímannsdóttir. Bína var eins árs þegar móðir hennar lést úr berklum og fósturforeldrarnir voru Þorsteinn Maríus Pálsson og Jakobína Petrea Jóhannsdóttir.

Bína giftist Valgarði Einari Björnssyni bifreiðarstjóra en hann lést árið 2000, á 82. aldursári. Saman eignuðust þau fimm börn, fjögur þeirra komust á legg, en næstelsta barnið þeirra, Birna Ingibjörg, lést þriggja ára vegna hjartagalla. Eftirlifandi synir Bínu eru Valgarð og Sverrir. Elsti sonurinn, Kári, lést árið 2012, sjötugur að aldri, og María lést í fyrra, 68 ára. Ömmubörn Bínu eru 16, langömmubörnin 38 og langalangömmubörnin orðin átta, alls 67 afkomendur.

Fram kom í viðtali við Bínu í Feyki, þegar hún varð 99 ára, að hún sæi ekki mikinn mun á unga fólkinu í dag og þegar hún var ung. Í dag tíðkast þó ekki að konur séu heimavinnandi og karlarnir að framfleyta fjölskyldunni, en þannig hefði það verið í hennar tilfelli. Bína vann aldrei utan heimilisins eftir að hún gifti sig og eignaðist börn. Fram að því hafði hún verið í síld á sumrin. Haft var eftir Bínu að henni fyndist fólk verða langlífara í dag en áður. Fleiri næðu því að verða 100 ára en áður. Þegar hún hefði verið ung hefði fólk um sjötugt verið eldgamalt í hennar huga, í dag væru sjötugir taldir á besta aldri.

Í viðtalinu við Feyki í fyrra vildi hún þakka móður sinni, Jakobínu Petreu, langlífið. Hún hefði verið dugleg að gefa henni lýsi, eða tvær matskeiðar á hverjum degi þar til Bína varð 12 ára. „Þá sagði Bína stopp og lét nægja að taka eina matskeið upp frá því. Bína minnist þessara stunda með hryllingi því lýsið hafi verið volgt þar sem það var geymt á borði bak við hurð,“ sagði m.a. í Feyki.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert