Slagsmál og fíkniefnaviðskipti algeng

Litla-Hraun. Fram kom á fundinum að turninn á framhlið byggingarinnar, …
Litla-Hraun. Fram kom á fundinum að turninn á framhlið byggingarinnar, sem hefur orðið að kennleiti hennar, muni hverfa. Dómsmálaráðherra segir turninn tímaskekkju. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Oft og títt kemur til slagsmála milli fanga á Litla-Hrauni, sem hittast venjulega allir í einu í sama samkomurými fangelsisins. Mismunandi gengi og hópar á Litla-Hrauni blandast þannig svo úr verða hættulegar og óviðunandi aðstæður fyrir fanga og fangaverði. 

Þetta sagði Páll Winkel fangelsismálastjóri á blaðamannafundi í Hegningarhúsinu í morgun, þar sem hann kynnti, ásamt Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra, að endurbætur séu hafnar á húsnæðinu á Litla-Hrauni, sem kosta munu alls 1,9 milljarða. 

Til að bæta gráu ofan á svart ganga fíkniefni kaupum og sölum milli fanga þegar þeir hittast allir á sama stað. Tók Páll dæmi á fundinum um fíkniefnið Spice, sem er lyktarlaust og segir hann að einu grammi af efninu megi skipta upp í 400 neysluskammta. 

Þar að auki er aðstaða fyrir aðstandendur fanga á Litla-Hrauni með öllu óviðunandi og nefnir Páll í því sambandi að börn fanga verði að heimsækja þá í þar til gerðum gámi á bílastæðinu fyrir utan fangelsið.

Páll Winkel fangelsismálastjóri.
Páll Winkel fangelsismálastjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tímabær uppbygging

„Aðbúnaðurinn á Litla-Hrauni er bara kaldur og andstyggilegur,“ segir Páll við mbl.is að fundi loknum.

„Það er erfitt að skapa góða stemningu en starfsfólkið hefur reynt sitt allra besta við að breyta því og hefur staðið sig vel hvað það varðar, sérstaklega hvað varðar fíkniefnin.“

Páll segir að ekki sé búið að kynna uppbygginguna fyrir föngunum, en að hann sé á leið beint á starfsmannafund þar sem málin verða rædd og kynnt í kjölfarið. Hann segir að fangarnir verði ábyggilega glaðir með áformin og þá sérstaklega þau er snúa að heimsóknartíma barna. 

„Það verða allir ánægðir með að geta fengið heimsóknir frá börnum sínum í mannsæmandi aðstæðum en ekki í gámi úti á bílastæði,“ segir hann. 

Fækkar brotum og þannig þolendum

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra kynnti áformin ásamt Páli, eins og fyrr segir, og henni var tíðrætt um að fyrirhuguð uppbygging muni hjálpa til við að lækka endurkomutíðni fanga, sem er nú þegar ansi há eins og hún lýsti á fundinum. 

„Ég held að þegar þessari uppbyggingu lýkur að þá verði að tryggja áframhaldandi og enn betri stuðningur hvort sem það er við menntun, þekkingu, atvinnusköpun og fíkni- eða geðvanda, fanga, til þess að árangur í því verkefni að lækka endurkomutíðni. Samfélagið á mikið undir við að það gerist vegna þess að þá fækkum við glæpum og afbrotum og á sama tíma þolendum afbrota,“ segir Áslaug. 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra á blaðamannafundinum.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra á blaðamannafundinum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Spurð að því hvort uppbygging á Litla-Hrauni muni fjölga plássum og þannig ráða bót á viðvarandi plássleysi íslenskra fangelsa síðustu ár, segir Áslaug að svo verði ekki endilega. Hún bendir á hið nýja Hólmsheiðarfangelsi sem lagaði plássleysi umtalsvert sem og þá staðreynd að fyrirhuguð áform séu einungis hugsuð sem endurbætur en ekki stækkun. 

„Í rauninni eru fangelsisplássin okkar í dag að svara dæmdum refsingum ágætlega á ári hverju. En við erum með of langa boðunarlista vegna ýmissa atriða og svo hafa refsingar verið að þyngjast, en við höfum farið í sérstakar aðgerðir til að stytta boðunarlista, til dæmis með notkun samfélagsþjónustu. En það er í raun ekki verið að stytta boðunarlista með þessari uppbyggingu heldur er frekar verið að bæta aðstöðu með því að skipta föngum betur upp í hópa og koma til móts við eðlilegar þarfir í fangelsiskerfinu,“ segir Áslaug Arna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert