Fáir fóru flatt í fyrstu hálkunni

Það leyndist víða hálka í morgun, sérstaklega í efri byggðum. …
Það leyndist víða hálka í morgun, sérstaklega í efri byggðum. Fátt var þó um slys vegna hálkunnar. mbl.is/Árni Sæberg

Íbúar víða á höfuðborgarsvæðinu vöknuðu í morgun við að utandyra var lúmsk hálka eftir nóttina. Var hálkan nokkuð fljót að fara víða af vegum, en hélst víða fram með morgni á göngu- og hjólastígum, sérstaklega í efri byggðum.

Þrátt fyrir fyrsta raunverulega næturfrostið á höfuðborgarsvæðinu virðist það ekki hafa komið mörgum í koll því aðeins tveir komu á slysadeild Landspítalans frá miðnætti og til klukkan tvö síðdegis vegna slysa í hálku. Jón Magnús Kristjánsson, læknir á slysadeildinni, segir í samtali við mbl.is að það geti ekki talist mikið.

Guðbrandur Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á umferðadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir svipaða sögu að segja með umferðarslys. Frá klukkan sex í morgun til klukkan tvö síðdegis var aðeins tilkynnt um eitt umferðarslys. „Það er í rólegri kantinum,“ segir hann en tekur fram að það sé oft svona þegar fyrsta hálkan geri vart við sig. Þá sé fólk passasamt, en þegar líði á og hálkudögum fjölgi vaxi því ásmegin og fari að keyra hraðar á ný við verri aðstæður og þá fjölgi slysunum. Hvetur hann því ökumenn að sýna áfram aðgát.

Í nótt og á morgun er aftur möguleiki á næturfrosti að sögn Haralds Ólafssonar, veðurfræðings á Veðurstofu Íslands, en hann segir að líkur séu á smá vætu í kvöld og í nótt sem geti valdið hálku. Næstu tvær nætur þar á eftir ættu þó að sleppa, en þá er spáð hlýrra veðri. Líkur á hálku á sunnudags- og mánudagsmorguninn eru því nokkuð litlar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert