Mikið tjón er þak lét undan snjóþyngslum

Lögregla ásamt byggingarfulltrúa og fulltrúa frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafa …
Lögregla ásamt byggingarfulltrúa og fulltrúa frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafa rannsakað vettvang. mbl.is/Arnþór Birkisson

Í síðustu viku hrundi þak á húsnæði sem nýtt er til geymslu á hjólhýsum, húsbílum og tjaldvögnum á bænum Mön í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Að sögn lögreglunnar á Suðurlandi hafði snjór safnast fyrir á þakinu. Síðan hlánaði og rigndi í snjóinn og þar með virðist þakið hafa brostið undan þunganum, en þetta gerðist 2. desember. 

Lögregla hefur ásamt byggingarfulltrúa og fulltrúa frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun rannsakað vettvang og hefur hann nú verið afhentur húsráðanda. Málið er áfram til rannsóknar hjá lögreglu en ljóst er að umtalsvert tjón hefur orði á húsnæðinu og á munum innanhúss.

Þetta kemur fram í yfirliti lögreglunnar á Suðurlandi.

Þar segir einnig að 11 umferðarslys hafi verið tilkynnt til lögreglu í liðinni viku. Í einu þeirra, þann 30. nóvember, valt rúta á þjóðvegi 1 í Mýrdal en í henni voru 7 farþegar. Einn þeirra var fluttur til aðhlynningar á heilbrigðisstofnun en aðrir voru lítið meiddir.    

Í öðru tilviki varð árekstur á einbreiðri brú yfir Hoffellsá án þess þó að slys yrðu á fólki en brúin var lokuð meðan unnið var að því að fjarlægja ökutækin af henni sem voru bæði óökufær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert