Aldrei fleiri kandídatar brautskráðst úr HÍ

Metfjöldi útskrifaðist í dag.
Metfjöldi útskrifaðist í dag. Ljósmynd/Háskóli Íslands

Alls brautskráðust 2.594 kandídatar frá öllum fræðasviðum Háskóla Íslands í dag. Aldrei hafa jafnmargir kandídatar brautskráðst frá HÍ og þurfti vegna fjöldans að halda tvær athafnir. 

„Þótt síðastliðin misseri hafi sannarlega verið krefjandi hafa þau einnig fært okkur nýja reynslu og nýja þekkingu á mörgum sviðum. Á grunni þeirrar þekkingar byggjum við m.a. þróun nýrra lausna og lyfja við veirusjúkdómum,“ sagði Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands við athöfnina, sem fram fór í frjálsíþróttahöllinni í Laugardal. 

Sagði rektorinn þá einnig að þótt Íslendingar séu vissulega sjálfstæð þjóð þá myndi allar þjóðir heimsins saman eitt mannkyn. „Engin þjóð stendur því ein, við verðum að vinna saman sem heild. Sú friðsæla þjóð, sem í kvæði Huldu er „svo langt frá heimsins vígaslóð“, er ekki á hjara veraldar,“ sagði hann. 

Flestir útskrifast frá Menntavísindasviði

Á fyrri brautskráningarathöfninni, sem hófst kl. 10 í morgun, fengu kandídatar í grunn- og framhaldsnámi frá Félagsvísindasviði og Verkfræði- og náttúruvísindasviði útskriftarskírteini sín. Samtals brautskrást 653 frá Félagsvísindasviði og 311 frá Verkfræði- og náttúruvísindasviði.

Á seinni athöfninni, sem hófst kl. 13.30, brautskráðust kandídatar í grunn- og framhaldsnámi frá Heilbrigðisvísindasviði, Hugvísindasviði og Menntavísindasviði. Þar brautskrást 578 frá Heilbrigðisvísindasviði, 279 frá Hugvísindasviði og 773 frá Menntavísindasviði.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. Ljósmynd/Háskóli Íslands
Ljósmynd/Háskóli Íslands


Vék að mikilvægi alþjóðlegrar samvinnu

Jón Atli vék einnig að mikilvægi alþjóðstarfs í ávarpi sínu í morgun en í stefnu skólans er þungi lagður á gæði á öllum sviðum starfsins til að styrkja alþjóðlega samkeppnishæfni í kennslu og rannsóknum. 

„Við leggjum höfuðáherslu á að alþjóðlega viðurkennd viðmið séu lögð til grundvallar í öllu okkar starfi,“ sagði rektor. „Í stefnu Háskóla Íslands til 2026 eru áherslur um opinn og alþjóðlegan háskóla festar í sessi. Þær munu stuðla að áframhaldandi farsæld íslensks samfélags og tryggja að prófgráður ykkar haldi ætíð gildi sínu á alþjóðlegum vettvangi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert