Rannsóknarboranir að hefjast að nýju við Þeistareyki

Þeistareykir.
Þeistareykir. Ljósmynd/Landsvirkjun

Landsvirkjun og Jarðboranir hf. hafa samið um borun tveggja rannsóknarhola á Þeistareykjum sumarið 2023.  Boranirnar eru liður í undirbúningi Landsvirkjunar fyrir stækkun Þeistareykjavirkjunar til að mæta aukinni orkuþörf á Norðausturlandi. 

Þeistareykjastöð var gangsett á árunum 2017-2018 og hefur rekstur stöðvarinnar gengið afar vel. Uppsett afl hennar er 90 MW. Kolefnisspor virkjunarinnar er með því lægsta sem þekkist í jarðvarmavirkjunum. Landsvirkjun kannar nú möguleika á að veita koldíoxíði úr borholum á svæðinu aftur ofan í jarðhitageyminn, þaðan sem það á uppruna sinn, að því er Landsvirkjun greinir frá í tilkynningu. 

Þá segir, að Landsvirkjun hafi nú hafið að nýju athuganir á möguleikum á stækkun virkjunarinnar og sé borun tveggja rannsóknarhola mikilvægur þáttur.  

Hörður Arnarson og Sigurður Sigurðsson.
Hörður Arnarson og Sigurður Sigurðsson. Ljósmynd/Landsvirkjun

„Jarðboranir hf. munu leggja til verksins borinn Þór, nýjasta og fullkomnasta bor fyrirtækisins. Stefnt er að því að bora holurnar með rafmagni frá Þeistareykjastöð sem sparar notkun á nokkur hundruð þúsund lítrum af jarðefnaeldsneyti.  Borframkvæmdin sjálf er því mikilvægur þáttur í að lækka enn frekar kolefnisspor virkjunarinnar.  

Þetta verður í fyrsta sinn sem jarðhitaholur á vegum Landsvirkjunar eru boraðar með rafmagnsbor. Lagðir hafa verið háspennustrengir um Þeistareykjasvæðið til að auðvelda þá vinnu,“ segir í tilkynningu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert