Þarf meira samráð við umhverfismat

Auður Önnu Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Landverndar.
Auður Önnu Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Landverndar. Ljósmynd/Landvernd

„Það er kannski helst hægt að draga þann lærdóm af þessu máli kísilverksmiðjunnar í Helguvík að við tökum ákvarðanir á faglegan hátt í rólegheitunum með allar upplýsingar uppi á borði,“ segir Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar. 

Í lok síðustu viku var haft eftir Benedikt Gíslasyni bankastjóra Arion banka að fullreynt væri að endurvekja starfsemi kísilverksmiðjunnar og færu menn núna að horfa á aðrar lausnir. 

Ekki starfrækt frá gjaldþroti 2018

Félagið United Sílicon hf. sem rak kísilverksmiðjuna fór í gjaldþrot árið 2018 og þá eignaðist Arion banki verksmiðjuna. Dótturfélag Arion banka, Stakksberg ehf., fór í bakgrunnvinnu til að finna nýjan kaupanda sem gæti rekið verksmiðjuna og á þessu ári var gengið til viðræðna við PCC, sem hafa rekið kísilverksmiðju á Bakka, en uppúr þeim viðræðum slitnaði nýverið og í kjölfarið sagði Arionbanki upp raforkusamningi við Landsvirkjun.

Kísilverið í Helguvík hefur ekki verið starfrækt frá árinu 2017 …
Kísilverið í Helguvík hefur ekki verið starfrækt frá árinu 2017 og nú bendir allt til að það verði ekki endurvakið. mbl.is/Árni Sæberg

Talsverð andstaða var við kísilverksmiðjuna í Reykjanesbæ og gengu þar undirskriftarlistar sem skilað var til formanns bæjarráðs þar sem farið var fram á bindandi íbúakosningu í sveitarfélaginu um kísilverksmiðju í Helguvík.

Þegar fregnir bárust af því að Arionbanki hefði hætt viðræðum við PCC og hygðist nú huga að annarri starfsemi í Helguvík var mörgum í Reykjanesbæ létt, þar á meðal bæjarstjóranum Kjartani Má Kjartassyni, sem sagði miklu muna að óvissunni um Helguvík væri nú lokið.

„Þarna var búið að vara við þessum framkvæmdum áður en Kísilverksmiðjan var reist,“ segir Auður Önnu og segir að það hafi aldrei verið sátt í samfélaginu um kísilverksmiðjuna og að fólk hafi haft áhyggjur af því hvaða afleiðingar vera kísilvers þarna gæti haft.

Hrósum Arionbanka fyrir ákvörðunina

„Við erum með mjög gallaða ákvarðanatöku á Íslandi í málefnum sem varða framkvæmdir sem geta haft mikil áhrif á umhverfið, meðal annars í umhverfismati og réttindum umhverfissamtaka til að koma að ákvörðunum. Þannig að ég held að við getum dregið þá ályktun af þessu máli líka að samráð þarf að vera miklu betra og við þurfum að hafa fagmennskuna í forgrunni.“

Hún segist vera gífurlega ánægð með þessar fréttir að hætt sé nú við að endurræsa kísilverksmiðjuna í Helguvík. „Það er algjör draumur og við hrósum bara Arionbanka fyrir að bregðast við þessum undirskriftalista sem við vorum með og skiluðum til bankans fyrr á þessu ári.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert