Fær að halda fellihýsinu

Héraðsdómur Norðurlands Eystra hefur úrskurðað um eignarhald fellihýsis sem fyrrverandi …
Héraðsdómur Norðurlands Eystra hefur úrskurðað um eignarhald fellihýsis sem fyrrverandi par deildi um. mbl.is/Þorsteinn

Héraðsdómur hefur dæmt um eignarrétt fellihýsis af tegundinni Rockwood-Freedom í máli fyrrverandi sambúðarfólks. Var niðurstaða dómsins að maður, sem hafði sjálfur greitt kaupverð fellihýsisins að fullu, en ekki verið skráður eigandi þess, hefði fullan eignarrétt að hýsinu. Þetta kem­ur fram í dómi Héraðsdóms Norður­lands eystra.

Konan var einnig dæmd til þess að greiða tæpa eina og hálfa milljón í málskostnað.

Maðurinn stefndi fyrrum sambýliskonu sinni fyrir dóm þar sem hún hafði látið skrá sig sem eiganda fellihýsis sem keypt var stuttu eftir að maðurinn og konan höfðu tekið upp samband.

Maðurinn stóð enn í skilnaði við fyrrverandi eiginkonu sína þegar kaupin áttu sér stað. Því var vinkona konunnar fengin til þess að kaupa fellihýsið en maðurinn millifærði á hana fullt verð (um 1,1 milljón króna). Þetta var gert til þess að koma í veg fyrir að fellihýsið blandaðist í eignaskipti hans og fyrrum eiginkonu hans.

Hafði alltaf langað í svona fellihýsi

Í dóminum er forsaga málsins rakin. Það var á heilsuhæli Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði árið 2018 þar sem málsaðilar kynntust fyrst en þar dvöldu þau bæði vegna kulnunar í starfi. Þau urðu ástfangin og skildu bæði við þáverandi maka og tóku upp samband sín á milli.

Parið var á sínum tíma í gönguferð á Djúpavogi, þar sem maðurinn bjó, þegar konan kom auga á fellihýsið. Hún sagði þá að sig hafi alltaf langað til að eiga slíkt fellihýsi. Það var því keypt um júnímánuð það sama ára með milligöngu æskuvinkonu konunnar eins og fyrr greinir.

Samlífið erfitt

Í ágúst keypti maðurinn helmingshlut í íbúð konunnar og fyrrverandi eiginmanns hennar á Akureyri. Enginn formlegur kaupsamningur var gerður en lokagreiðslu upp á 1.796.000 krónur, skyldi greiða í desember 2018 en til þess kom ekki. Það var ekki fyrr en tveimur árum síðar sem konan greiddi lokagreiðsluna til fyrrum eiginmanns síns, sem gaf út afsal til hennar fyrir eignarhlutanum.

Maðurinn flutti inn til konunnar í október 2018. Sambúðin reyndist þó fljótt stormasöm og flutti hann úr íbúðinni í apríl 2019 en þau voru aldrei formlega skráð í sambúð.

Vinkonan var enn skráður eigandi

Þann 18. júní 2020 ákváðu konan og vinkona hennar, sem var enn skráður eigandi fellihýsisins, að skrá það sem eign konunnar án nokkurs samráðs við manninn, sem greiddi fullt verð fyrir hýsið. Hann komst að því nokkrum mánuðum seinna.

Hann óskaði eftir því að vinkonan myndi skrá fellihýsið á hans nafn. Vegna veikinda hans í kjölfar hjartaáfalls sumarið 2019 og brjóskloss í framhaldinu hafði farist fyrir að hann gengi á eftir skráningunni gagnvart vinkonu konunnar.

Konan hafnaði kröfum hans um að skrá á hann fellihýsið, þar sem hún taldi sig eiga tilkall til fellihýsisins sem hluta af uppgjöri við hann vegna samvistaslita en fellihýsið hefur alla tíð verið í vörslu hans.

Maðurinn kærði málið til lögreglu í mars 2021. Í nóvembermánuði sama árs felldi lögreglan málið niður þar sem það væri ekki líklegt til sakfellingar. Ríkissaksóknari staðfesti þá ákvörðun árið 2022. Lögregla felldi einnig niður kæru konunnar á hendur manninum vegna meints heimilisofbeldis.

Maðurinn hafði einnig áður höfðað mál á hendur konunni þar sem hann krafðist þess að fá afhenta lausafjármuni sem hann átti í íbúð hennar en hún neitaði honum um aðgang að. Áður en til úrskurðar kom hafði konan veitt honum aðgang að lausafénu og var málið fellt niður.

Dóminn allan má nálgast hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert