Grafa brann í Látravík

Grafan brann í Látravík á Vestfjörðum.
Grafan brann í Látravík á Vestfjörðum. Ljósmynd/Davíð Rúnar

Slökkvilið Patreksfjarðar og Tálknafjarðar voru kölluð út um klukkan eitt í dag vegna elds sem kom upp í gröfu í Látravík á sunnanverðum Vestfjörðum. Varð hún alelda og brann allt sem brunnið gat, en enginn slasaðist.

Vegagerðin hefur staðið fyrir framkvæmdum á svæðinu og var grafan notuð við að ræsa fram skurð nálægt veginum. Samkvæmt Davíð Rúnari Gunnarssyni, slökkviliðsstjóra í Vesturbyggð, var starfsmaðurinn í kaffi þegar eldurinn kviknaði og varð hún fljótt alelda.

Um langan veg var að fara fyrir slökkviliðið, en Davíð segir þá hafa komist á staðinn eftir um 50 mínútna keyrslu. Var grafan brunnin þegar slökkvilið kom á staðinn, en slökkt var í glæðum.

Davíð segir að öll olía og glussi hafi brunnið og ekki lekið niður í jarðveginn. Nú þegar slökkvilið hefur slökkt í glæðum tekur lögreglan við vettvangi að hans sögn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert