Gömul lækningameðferð ryður sér aftur til rúms á Íslandi: Lirfur notaðar við meðhöndlun sára

Flugnalirfur voru notaðar í fyrsta sinn hérlendis í síðustu viku til að meðhöndla sár sykursýkissjúklings. Um 300 lirfur voru settar í sár á fæti til að hafa jákvæð áhrif á sáralækninguna. "Þetta er eitt af þessum eldgömlu húsráðum eða meðferðum sem var farið að líta á aftur fyrir um 10 árum eða svo. Þá kom í ljós að þetta virðist virka vel á erfið sár, eða djúp sár með miklum dauðum vef. Það eru einkum sykursýkissjúklingar sem fá þannig sár á fæturna," sagði Baldur Baldursson, húðsjúkdómalæknir á húðdeild Landspítalans.

"Rannsóknir hafa sýnt að þetta virkar mjög vel á sár þar sem líkaminn getur ekki stoppað sárin í að dýpka. Þetta á sérstaklega við um sykursýkissjúklinga sem geta fengið slæm sár á fæturna af þessu tagi.

Sár er gat á húðinni. Fyrir innan er fita og bandvefur og síðan yfirleitt bein og vöðvar. Lirfurnar éta eða brjóta niður dauðan vef sem er í sárinu. Fyrir utan þetta stuðla þær að myndun vaxtarþátta á mörkum lifandi og dauðs vefjar þannig að frumurnar fara að skipta sér og hrinda sjálfar dauðu vefjunum frá og skapa skilyrði fyrir að sárið grói. Þannig er húðin ekki skotmarkið heldur fituvefur og bandvefur þar sem frumurnar hafa dáið," sagði Baldur.

Lirfurnar eru aldar upp á rannsóknarstofum í Svíþjóð og Englandi við sótthreinsaðar aðstæður. Þegar þær eru orðnar um þriggja til fjögurra millimetra langar eru þær fluttar til landsins í ræktunarflöskum með hraðpósti. Lirfurnar eru fluttar inn sem lyf þar sem þær eru sótthreinsaðar. Síðan er þeim skolað innan úr flöskunum og í sárið.

"Þær sprikla ansi hressilega þegar verið er að koma þeim í sárið en alls eru um 300 lirfur settar í sárið og búið um það á sérstakan hátt þannig að þær séu í sárinu en hvergi annars staðar. Sárið er einangrað með umbúðum, en um leið þarf að sjá til þess að loft komist að sárinu því annars kafna lirfurnar. Það er svolítil handavinna. Síðan reynum við að sjá til þess að það haldist hæfilegt rakastig í sárinu. Loks fá lirfurnar að vinna í þrjá til fjóra daga og á meðan verður sjúklingurinn að liggja. Síðan eru þær teknar burtu og sárið skolað og látið jafna sig áður en byrjað er á næstu aðgerð."

Meðferðin er endurtekin nokkrum sinnum og tekur nokkrar vikur alls. Baldur segir lirfur hafa verið settar í fyrsta sinn í sjúkling í síðustu viku og teknar burt í fyrradag. Kvaðst hann eiga von á að setja annan skammt í sárið í dag eða morgun.

Baldur sagði viðbrögð sjúklingsins góð. "Þessi sár eru ógnun við útliminn og geta endað í aflimun ef illa fer, þannig að svo framarlega sem maður útskýrir hlutina er þetta allt í lagi. Auðvitað finnst fólki þetta ekkert skemmtilegt."

Í lok meðferðar er lirfunum fargað. Þær eru settar í plastpoka og þeim hent. Ef þeim væri sleppt yrðu þær að algengri tegund af meinlausum flugum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert