Kaupmaðurinn á horninu að hverfa?

Sjálfstætt starfandi matvörukaupmönnum, oft nefndir kaupmaðurinn á horninu, hefur fækkað verulega á undanförnum árum og áratugum. Í dag eru aðeins um tuttugu slíkar verslanir á höfuðborgarsvæðinu en þær voru helmingi fleiri fyrir tíu árum.

Ekki eru til nákvæmar tölur um fjölda matvöruverslana sem reknar eru af sjálfstætt starfandi kaupmönnum þótt bróðurpartur slíkra kaupmanna sé og hafi verið félagsmenn í Félagi matvörukaupmanna.

Innan við tuttugu sjálfstætt starfandi kaupmenn

Samkvæmt upplýsingum frá Kaupmannasamtökunum, sem fyrrnefnt félag er aðili að, eru innan við tuttugu sjálfstætt starfandi kaupmenn á höfuðborgarsvæðinu nú sem reka aðeins eina verslun hver. Fyrir aðeins tíu árum voru þeir tæplega fjörutíu.

Heimir L. Fjeldsted, fyrrverandi kaupmaður í Kjörbúð Reykjavíkur og fyrrverandi formaður Félags matvöruverslana, tók saman fjölda verslana af þessu tagi í Reykjavík. Að hans sögn voru þær 31 árið 1999 en milli 50 og 60 1989.

Af þessu má sjá að fækkunin á sjálfstætt starfandi matvöruverslunum er veruleg. Samkvæmt ofangreindum tölum hefur sjálfstætt starfandi matvörukaupmönnum fækkað um tíu á hverju fimm ára tímabili undanfarin fimmtán ár.

Markaðshlutdeild fór úr 15% niður í 6–7%

Tölur úr skýrslu Samkeppnisstofnunar um matvörumarkaðinn frá árinu 2001 sýna þetta einnig. Þar kemur fram að árið 1996 voru aðrar verslanir en þær sem tilheyrðu stórfyrirtækjum og verslanakeðjum með 15% markaðshlutdeild. Aðeins fjórum árum síðar, árið 2000, var markaðshlutdeild sjálfstætt starfandi matvöruverslana komin niður í 6–7%.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert