Erum mjög ringluð og vitum ekkert hvað verður

Hjónin Krystyna Pohorecka og Hieronim Graczyk:
Hjónin Krystyna Pohorecka og Hieronim Graczyk: "Næstu tvær vikur verða erfiðar." mbl.is/Margrét Þóra

"ÞETTA varð okkur mikið áfall, algjört reiðarslag og við erum bara mjög ringluð og vitum ekkert hvað verður," sagði Krystyna Pohorecka sem ásamt eiginmanni sínum Hieronim Graczyk hefur búið á Raufarhöfn í rúm sjö ár. Þau komu frá Póllandi, en nú starfa um 25 landar þeirra í frystihúsi Jökuls á staðnum og segja þau óvissu ríkjandi í þeirra hópi.

Öllu starfsfólki Jökuls, um 50 manns, hefur verið sagt upp störfum en 20 verða endurráðnir. Jökull er hluti af Brimsamstæðunni, sem er dótturfélag Eimskipafélagsins. Tap varð af rekstrinum upp á 96 milljónir króna á liðnu ári og á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs nemur tapið um 26 milljónum króna. Aukin samkeppni, einkum vegna mikils framboðs fisks frá Kína og gengi krónunnar, hafi þar mest áhrif.

Þau hjónin, Krystyna og Hieronim, fluttust til Íslands í febrúar árið 1996 og hafa búið og starfað á Raufarhöfn síðan. "Okkur hefur líkað mjög vel og við viljum vera hér áfram, við höfum ekki löngun til að flytja heim til Póllands aftur. Það er betra að vera á Íslandi, meira öryggi," sagði Krystyna. Þau bjuggu til að byrja með í verbúð, en fluttu síðan í leiguíbúð í fjölbýlishúsi á staðnum. Fyrir tveimur og hálfu ári festu þau kaup á einbýlishúsi við Tjarnarholt. "Við keyptum húsið því við ætluðum okkur svo sannarlega að búa hér á staðnum áfram. Við höfðum örugga vinnu og það var fyrir öllu í okkar huga. Það gekk allt svo vel og við vorum ánægð," sagði hún. Þau Hieronim eru sammála um að gott sé að búa á Íslandi og því hafi þau ákveðið að setjast að fyrir fullt og allt. Atvinnuöryggi hafi þar ráðið mestu, en eins sé gott að búa í litlu rólegu samfélagi. "Fólkið er vingjarnlegt og þetta samfélag er gott, þess vegna viljum við vera áfram," sagði Hieronim. "Ég vona bara að Guð hlusti á okkur þegar við biðjum um að fá að vera áfram. Ég veit ekki hvað við getum gert ef við missum vinnuna," sagði Krystyna, en hún er trúnaðarmaður hjá Jökli. "Við skiljum það samt vel að Íslendingarnir gangi fyrir með vinnu, þetta er þeirra land."

Hún kvaðst sorgmædd vegna uppsagnanna og samdráttarins hjá frystihúsinu og sagði að tíðindin hefðu komið sér í opna skjöldu. Algjörlega óvænt og því hefði áfallið verið mikið. Hún sagði að 15. júní næstkomandi ætti að liggja fyrir hvaða starfsmenn verði endurráðnir til fyrirtækisins og síðan yrði starfsemin stöðvuð vegna sumarleyfa frá 29. júní til 11. ágúst. En þá yrðu starfsmenn einungis 20. "Næstu tvær vikur verða erfiðar, á meðan við bíðum eftir fregnum af því hvort við fáum að halda áfram eða verðum í hópi þeirra sem fara. Við erum ekki farin að hugsa mikið um hvað gerist ef við fáum ekki vinnu, við stöndum uppi ráðalaus en vonum það besta," sagði Krystyna.

Akureyri. Morgunblaðið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert