Fleiri úrræði hér en annars staðar

Engin haldbær gögn liggja á bak við fullyrðingar, sem haldið hefur verið á lofti á síðustu vikum, um mikla fjölgun útigangsmanna í Reykjavík. Þetta segir Óttar Guðmundsson geðlæknir og yfirlæknir vímuefnadeildar geðsviðs Landspítalans.

"Mér finnst þetta fyrst og fremst vera upphlaup í fjölmiðlun," segir Óttar. Hann segist ekki hafa séð neitt sem bendi til þess að um sé að ræða hundrað til hundrað og tuttugu manns sem séu á götunni. Hann segir þessa tölu vera úr lausu lofti gripna. Aðrir sem vel þekkja til málefna útigangsmanna í Reykjavík segja að ástandið sé ekki mikið verra en verið hefur og taka undir það að umræðan síðustu daga hafi farið heldur geyst.

Sjötíu til hundrað manns á götunni

Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn í Reykjavík, segir að lögreglan telji að nú sé þessi fjöldi á bilinu sjötíu til hundrað manns þótt erfitt sé að gera sér fulla grein fyrir raunverulegum fjölda.

Geir Jón segir það ekki vera launungarmál að með lokun og flutningi meðferðarheimila hafi fjöldi útigangsmanna í höfuðborginni aukist. Hann segir að venjulega aukist fjöldinn á götunni á sumrin en telur að nú í sumar hafi fjölgunin verið ívið meiri en áður.

Óttar Guðmundsson telur að mikilvægast sé að finna úrræði fyrir fólk sem ekki sé lokað inni á meðferðarheimilum. Hann telur ekki vera skort á plássum fyrir þá sem ánetjast hafa áfengi og öðrum vímuefnum. "Hér er meira framboð á meðferðum fyrir slíka einstaklinga en nokkurs staðar í Vestur-Evrópu," segir hann.

Óttar telur að taka þurfi til skoðunar þau meðferðarúrræði sem notast er við. "Spurningin er hvort það þurfi að breyta þeirri meðferð sem boðið er upp á. Þessir einstaklingar hafa margsinnis farið í meðferð en eru samt á götunni. Spurningin er því hvort meðferðarbatteríið í landinu þurfi að koma til móts við þessa einstaklinga á annan hátt en það hefur gert til þessa."

Vantar fleiri úrræði eftir meðferð

Úrræði fyrir fíkla sem farið hafa í gegnum hefðbundna meðferð eru takmörkuð að mati Óttars. "Það sem ég held að þurfi fyrst og fremst, varðandi þarfir þessa hóps, eru betri félagsleg úrræði í Reykjavík. Það þarf að koma annað gistiskýli, eins og er í Þingholtsstræti 25; þannig að það séu fleiri úrræði fyrir þessa einstaklinga innan bæjarmarka Reykjavíkur. Þá er ég ekki að tala um að inniliggjandi meðferð sé alltaf eitthvað töfraorð. Það þarf að hjálpa þessum einstaklingum að lifa í borginni," segir hann.

Undir þetta tekur Geir Jón sem segir að sambýli sem komið hafi verið upp við Miklubrautina hafi gefið góða raun. Þar eru einstaklingar sem áður töldust í hópi "góðkunningja" lögreglunnar en Geir Jón segir að afskipti lögreglu af þessum einstaklingum séu nú sama og engin.

Langvarandi sjúkralega ekki lausn

Langvarandi sjúkralega er ekki heppileg lausn á þeim vanda sem við er að glíma, að mati Óttars Guðmundssonar. Hann bendir á að ekki sé til það meðferðarkerfi í heiminum sem skili 100% árangri og telur það vera undarlegar áherslur að vilja fjölga meðferðarplássum í samfélagi sem nú þegar bjóði upp á fleiri meðferðarúrræði en nokkuð annað land sem hann þekki til.

Hann segir að nútímageðlækningar hafi fyrir margt löngu horfið frá því að líta á langvarandi innilokun sem heppilegt meðferðarúrræði. Hann segir slíka meðferð geta gert meiri skaða en gagn.

Að mati Óttars er nauðsynlegt að koma upp fleiri úrræðum fyrir fíkla eftir að hefðbundinni afvötnun og meðferð sleppir. "Það eru ákveðin úrræði sem eru mjög góð s.s. eins og gistiskýlið og kaffistofa Samhjálpar við Hverfisgötu. Þetta eru mjög góð félagsleg úrræði. Ég held það væri mikið nær að fjölga þessum úrræðum og bæta úr þeim heldur en að vera alltaf að hrópa á fleiri meðferðarpláss," segir Óttar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert