VG segir óhjákvæmilegt að grípa til aðgerða til varnar sauðfjárbændum

Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs telur óhjákvæmilegt að grípa þegar á þessu hausti til aðgerða til að verja kjör sauðfjárbænda. Markmið slíkra aðgerða á að vera að koma í veg fyrir að afkoma sauðfjárbænda versni enn og forsendur skapist til að snúa vörn í sókn í kjaramálum bænda.

Fram kemur í tilkynningu frá VG að þingflokkurinn hafi að undanförnu haft vanda landbúnaðarins til sérstakrar skoðunar. Þingflokkurinn hafi fengið til sín fulltrúa frá bændasamtökunum og þingmenn hafi heimsótt bændur og afurðastöðvar og kynnt sér stöðu mála með ýmsum hætti.

Fram kemur í ályktun frá þingflokki VG að óhjákvæmilegt sé grípa þegar á þessu hausti til aðgerða til að verja kjör sauðfjárbænda. Minnt er á að framundan séu kjarasamningar á vinnumarkaði þar sem samtök launamanna hyggist berjast fyrir bættum kjörum umbjóðenda sinna. Í aðdraganda þess geti stjórnvöld ekki horft aðgerðalaus á eina lægst launuðu stétt landsins verða fyrir tuga prósenta kjaraskerðingu. Að óbreyttu stefni í að tekjur sauðfjárræktarinnar í heild lækki um 250 – 300 milljónir króna vegna verðlækkunar hjá afurðastöðvum og aukinnar útflutningsskyldu. Bændur hafi ekkert borð fyrir báru til að taka slíka tekjuskerðingu á sig.

Þá segir í ályktuninni, að nátengdur vanda sauðfjárræktarinnar sé vandi þeirra bænda sem hafi tekjur af framleiðslu nautakjöts, en báðar greinarnar gjaldi fyrir upplausnarástand á sviði afurðastöðva og kjötmarkaðar hér á landi og þá óheilbrigðu viðskiptahætti sem þar tíðkist. Í kjúklinga- og svínarækt séu sjálfstæðir framleiðendur, sem ekki sé haldið gangandi af fjármálafyrirtækjum, óðum að týna tölunni. Stjórnvöld geti ekki látið sem þeim komi þessi vandi ekki við, hvorki gagnvart því sem lýtur að kjörum bænda né hinu sem varðar viðskiptahætti á kjötmarkaði.

Þá kalli loðdýraræktin einnig eftir aðgerðum stjórnvalda til að hún fái notið sambærilegra rekstrarskilyrða og atvinnugreinin geri í nágrannalöndunum, einkum hvað varðar aðgang að hráefni til fóðurgerðar og flutningskostnað. Óhagstæð gengisþróun að undanförnu geri það að verkum að greinin þurfi nauðsynlega á sambærilegu rekstrarumhverfi að halda eigi hún að lifa af.

Þingflokkurinn segist telja að skipta beri aðgerðum nú í tvennt: Annars vegar bráðaaðgerðir sem hafi það að markmiði að verja bændur fyrir frekara tekjufalli og hins vegar beri brýna nauðsyn til að móta framtíðarstefnu í málefnum landbúnaðarins. Segist flokkurinn hafa mótað stefnu um að taka beri upp búsetutengdan grunnstuðning sem hluta af stuðningi við landbúnað og búsetu í sveitum. Miðað yrði við heilsársbúsetu í sveitum og tiltekna skilgreinda landbúnaðarstarfsemi eða landbúnaðartengd atvinnuumsvif. Slíkt stoðkerfi við landbúnað og búsetu í strjálbýli opnai á fjölbreyttari þróunarmöguleika en nú er, komi á meira jafnræði milli greina, sé líklegra til að standast alþjóðasamninga á viðkomandi sviði og sé laust við ýmsa ókosti sem núverandi fyrirkomulag hefur t.d. hvað varðar ættliðaskipti eða endurnýjun í greininni.

Skorar þingflokkurinn á ríkisstjórnina að undirbúa án tafar aðgerðir til lausnar bráðavanda landbúnaðarins. Liggi tillögur um slíkt ekki fyrir þegar þing kemur saman í októberbyrjun muni þingflokkur VG taka málið upp á Alþingi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert