Kæra byggingu tennisvallar í bakgarði kínverska sendiráðsins

Kínverska sendiráðið við Garðastræti 41 hefur látið útbúa tennisvöll í fullri stærð í bakgarðinum. Nágrannar sendiráðsins sendu á mánudag úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála í Reykjavík stjórnsýslukæru og fara fram á að heimild byggingarfulltrúa til framkvæmdanna verði felld niður og þær stöðvaðar.

Í greinargerð með stjórnsýslukærunni segir að sendiráðið hafi hundsað fyrirmæli byggingafulltrúa Reykjavíkur. Í bréfi byggingafulltrúans frá 26. mars sl. kom fram að ekki þurfi að sækja um leyfi fyrir gerð tennisvallarins þar sem landhæð yrði nær óbreytt. Þetta telja nágrannarnir að hafi verið þverbrotið og segja að miklu magni af jarðvegi hafi verið keyrt í lóðina. Innbyrðis afstaða garðanna hafi því raskast stórlega. Nú hafi lóð kínverjanna verið lyft töluvert upp fyrir lóð nágrannanna, sem áður hafi verið í sömu hæð.

Eftir fund með byggingafulltrúa voru framkvæmdirnar stöðvaðar 8. ágúst. Segir byggingafulltrúi í bréfi að umfang framkvæmdanna var meira en honum var gert grein fyrir í upphafi. Málinu var vísað til borgarlögmanns sem sagði það álit sitt, að gerð tennisvallar á einkalóð kínverkska sendiráðsins sé ekki byggingarleyfisskyld og afgreiðsla byggingarfulltrúa því í samræmi við lög og reglur. Á fundi byggingarfulltrúa 26. ágúst var svo samþykkt byggingarleyfi fyrir gerð tennisvallarins.

Þessa afgreiðslu byggingafulltrúa hafa nágrannar sendiráðsins nú kært til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingamála. Segir að ein höfuðástæðan fyrir kærunni sé sú að framkoma starfsmanna sendiráðsins gagnvart nágrönnum hafi einkennst af frekju og yfirgangi. "Virðist sem erlendir sendimenn telji sig hafna yfir þær almennu samskipta- og lagareglur, sem gilda í því landi, sem þeir dveljast í," og vitnað í 41. grein Vínarsamnings um stjórnmálasamband þar sem skýrt sé tekið fram að sendimönnum beri að virða lög og reglur móttökuríkisins. Þegar byggingarleyfi er veitt skal grenndarkynning fara fram en það hefur ekki verið gert í þessu tilviki.

Bygging tennisvalla inn í grónu og gömlu íbúðarhverfi er óþekkt með öllu, segir í greinargerðinni, og hefur hreint ekki með friðhelgi og forréttindi erlendra sendimanna að gera. "Allar sérreglur vantar í lög og reglugerðir um tennisvelli í íbúðarhverfum. Það skyldi engan undra því slík notkun einkalóða er í sjálfu sér fráleit."

Einnig er gert ráð fyrir að starfsmenn sendirráðsins nýti tennisvöllinn á sumrin þegar nágrannarnir noti sínar lóðir hvað mest. Raunveruleg slysahætta sé af vellinum þar sem tennisboltar séu mjög harðir viðkomu og nái allt að 200 km hraða hjá bestu tennisleikurum. M.a. af þessari ástæðu sé 5-10 metra hátt net umhverfis tennisvelli í þéttbýli erlendis. Samkvæmt skilyrðum byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar mega Kínverjarnir ekki setja hærri girðingu en 180 sentimetra og yfir hana fara tennisboltar auðveldlega á meðan á leik stendur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert