Lögreglumenn dæmdir í skilorðsbundið fangelsi

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag tvo lögreglumenn, annan í 5 mánaða skilorðsbundið fangelsi og hinn í 2ja mánaða skilorðsbundið fangelsi, fyrir ólöglegar handtökur í miðborg Reykjavíkur og brot í opinberu starfi snemma á þessu ári. Þá voru lögreglumennirnir dæmdir til að greiða manni, sem þeir handtóku, 100 þúsund krónur í bætur og 60 þúsund krónur í málskostnað. Lögreglumennirnir voru einnig dæmdir til að greiða verjendum sínum um 700 þúsund krónur í málsvarnarlaun. Lögreglumennirnir tóku sér frest til að ákveða hvort þeir áfrýja dómnum til Hæstaréttar.

Lögreglumennirnir voru dæmdir fyrir fyrir ólöglegar handtökur í byrjun mars, ranga skýrslugerð vegna málanna og brot í opinberu starfi. Annar þeirra var og dæmdur fyrir að beita úðavopni gegn öðrum hinna handteknu án nægilegra ástæðna eða tilefnis.

Í skýrslum sínum um handtökurnar skráðu lögreglumennirnir, ranglega samkvæmt niðurstöðu dómara, að múgæsing hefði brotist út eftir handtöku mannanna.

Í dómi héraðsdóms segir að brotin hafi einkum verið alvarleg vegna þess að það sé grundvallaratriði í lýðfrjálsu landi að almenningur geti treyst því að lögregla vandi vinnubrögð sín og fari að ábyrgð með valdheimildir sínar. Sérstaklega sé það litið alvarlegum augum að lögreglumenn skuli freistast til að réttlæta eigin gerðir eða starfsfélaga sinna með röngum skýrslum. Skýrslur lögreglu séu megin grundvöllur ákæru fyrir brot og þýðingarmikil sönnunargögn í opinberum málum. Séu miklir almannahagsmunir tengdir því að hægt sé að treysta þeim og framburði lögreglumanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert