Dreginn út úr rúmi sínu í Reykjavík og pyntaður

Lögreglan hafði fljótt upp á misyndismönnunum.
Lögreglan hafði fljótt upp á misyndismönnunum. mbl.is/Júlíus

Rétt rúmlega þrítugur maður var sóttur inn á heimili sitt í Reykjavík í nótt, dreginn þaðan út og síðan stungið í farangurshólf eigin bifreiðar. Var síðan ekið um höfuðborgarsvæðið og maðurinn pyntaður. Varð honum til happs að maður varð þess var uppi á Höfða að verið var að draga hann aftan í bíl eftir svelli.

Vegfarandi varð þess var um klukkan 1:35 í nótt að verið var að berja á manni uppi í Höfðahverfi. Styggð kom að þeim sem að verki voru og flýðu þeir af vettvangi en skildu manninn og einn bíl eftir. Vitnið gat hins vegar gefið greinargóða lýsingu á bíl mannanna.

Vaskir og snöggir lögregluþjónar höfðu fljótt uppi á bílnum sem mennirnir reyndu að stinga af á og komast undan og handtóku alls 5 menn sem í honum voru. Bíða þeir að verða yfirheyrðir. Í bílnum fundust 8 grömm af hvítu fíkniefni og 9 grömm af öðrum fíkniefnum, aðallega hassi.

Að sögn varðstjóra hjá lögreglunni í Reykjavík var maðurinn, sem er fæddur 1972, sóttur inn á heimili sitt og dreginn út. Stungið í farangursgeymslu bifreiðar sinnar og ekið um Kópavog og Hafnarfjörð og aftur í Kópavog þar sem farið var með hann inn í einhverja geymslu og hann barinn illa.

Hengdu manninn aftan í bíl og drógu hann eftir klakanum

Úr geymslunni í Kópavogi var svo haldið upp á Höfða þar sem teygju var brugðið um háls mannsins og hann dreginn eftir bílnum á klaka. Eftir að lögregla skarst í leikinn var hann fluttur á slysadeild Landspítala háskólasjúkrahúss í Fossvogi með áverka á höfði, hálsi og á höndum. Þá mun hann og hafa verið með áverka á auga en hann bar því við að eitthvað hefði verið sprengt upp við andlit hans í geymslunni í Kópavogi.

Mennirnir fimm sem sitja nú í fangageymslum eru fæddir á árabilinu 1971-1981 og kannaðist lögregla við flesta þeirra ef ekki alla af fyrri afskiptum af þeim. Að sögn varðstjórans er líkamsárásir af svipuðu tagi að verða nær daglegt brauð. Talið er að hér hafi verið um að ræða einhvers konar uppgjör í fíkniefnaheiminum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert