Meira en helmingur of feitur

Fjórði hver karlmaður og fimmta hver kona stunda enga reglulega líkamsþjálfun, þrátt fyrir sterkar fræðilegar vísbendingar um margvísleg jákvæð áhrif hreyfingar á heilsufar. Þetta er meðal niðurstaðna rannsóknar sem framkvæmd var á höfuðborgarsvæðinu á árunum 2001-2003 af læknum og öðrum sérfræðingum á Landspítala - háskólasjúkrahúsi.

Einnig kemur fram að meira en helmingur fullorðinna íbúa höfuðborgarsvæðisins er of þungur eða feitur. "Fleiri Íslendingar lifa kyrrsetulífi en flestar grannþjóðir okkar og setja þarf fram raunhæf markmið til að auka almenna ástundun þjálfunar meðal þjóðarinnar," segir enn fremur í niðurstöðum skýrslunnar, sem er birt í nýjasta tölublaði Læknablaðsins.

Um fimmtungur kvenna og fjórðungur karla á höfuðborgarsvæðinu sagðist ekki stunda neina líkamlega þjálfun. Hjá þeim sem stunduðu þjálfun var sund, ganga eða leikfimi algengasta þjálfunaraðferðin. Helmingur kvenna á aldrinum 30-45 ára taldist of feitur, og 68,2% karla á aldrinum 50-65 ára, en þar var hæsta hlutfall þeirra sem töldust í of miklum holdum.

Að sögn Sigríðar Láru Guðmundsdóttur, íþróttafræðings og eins aðstandenda rannsóknarinnar, var áhugavert að rannsaka hvort umræða um að Íslendingar væru margir of feitir ætti sér stoð í raunveruleikanum. "Niðurstöðurnar staðfesta að Íslendingar hreyfa sig ekki nóg og eru of feitir, en ástæða þess er ekki ljós. Við höfum leitt að því líkur að vinnutími, veðurfar og mataræði hérlendis sé orsakavaldurinn," sagði Sigríður Lára í samtali við Morgunblaðið.

Sigríður segir margt gott verið að gera um allt land til að auka hreyfingu landsmanna og stuðla að heilbrigðari lífsháttum. "Þar má nefna átakið Ísland á iði og starf Manneldisráðs. Það nægir hins vegar ekki til. Gera mætti átak á sviði hreyfingar sýnilegra í samfélaginu," bætir hún við. "Það vantar sýnilega stofnun sem stuðlar að rannsóknum og fræðslu á hreyfingu sem hluta af lífsstíl."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert