Farsíminn kom upp um þjófinn

Víkingahátíð hófst í gær í Hafnarfirði og eru norrænir víkingar hér af því tilfefni. Þeir hafa aðstöðu í íþróttahúsinu við Strandgötu og ekki vildi betur til en svo að það gleymdist að læsa húsinu yfir aðfaranótt miðvikudags. Það var ekki að sökum að spyrja, maður gekk þar inn óboðinn og fór ránshendi um eigur nokkurra danskra víkinga, tók stafræna myndavél, farsíma og óátekna vodka-flösku.

Þegar hafnfirskir lögreglumenn komu á vettvang fannst farsími, sem enginn hinna tæknivæddu víkinga kannaðist við að eiga. Var allt útlit fyrir að þjófurinn hefði gleymt sínum eigin farsíma.

Við rannsókn málsins var síminn helsta sönnunargagnið og þegar hafðist upp á eiganda hans í gærkvöldi var hann tekinn til yfirheyrslu og viðurkenndi að hafa þýfið undir höndum. Glöddust dönsku víkingarnir og geta nú tekið stafrænar myndir, hringt í stafrænan síma og dreypt á vodkanu sínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert