Fulltrúi Rannsóknarnefndar flugslysa á leið til Dubai

Flugvél Atlanta á flugvellinum í Sharjah í gærkvöldi.
Flugvél Atlanta á flugvellinum í Sharjah í gærkvöldi. mbl.is/Jóhannes Tómasson

Þormóður Þormóðsson, rannsóknarstjóri Rannsóknarnefndar flugslysa er nú á leið til Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum en Þormóður verður fulltrúi íslensku rannsóknarnefndarinnar við rannsókn á því þegar flugvél af gerðinni Boeing 747 frá Flugfélaginu Atlanta hlekktist á í flugtaki í gærkvöldi á Sharjah flugvelli skammt frá Dubai.

Vélin var í fragtflugi og voru 3 áhafnarmeðlimir um borð. Engan sakaði en flugvélin er talin mikið skemmd og er óvíst talið hvort hún flýgur á ný.

Þrír flugmenn, þar af einn íslenskur, og flugvélstjóri voru í áhöfn. Þeir fóru út um dyr rétt aftan við stjórnklefann en slökkvilið flugvallarins kom á staðinn þegar þeir voru að klifra út. Þeir gáfu stutta skýrslu á staðnum, báru sig vel og kenndu sér einskis meins líkamlega en voru færðir til læknisskoðunar til öryggis. Atvikið varð klukkan 16:35 að staðartíma. Þotan var komin nálægt flugtakshraða þegar flugmenn ákváðu að hætta við flugtakið.

Þegar séð varð að ekki yrði unnt að stöðva vélina á flugbrautinni brugðu flugmennirnir á það ráð að sveigja henni til vinstri rétt við brautarendann þar sem er ósléttur og sendinn jarðvegur. Nefhjól vélarinnar brotnaði og annar hjólabúnaður skemmdist, sandur þyrlaðist inní mótorana og skemmdir eru sjáanlegar á búk.

Einar Óskarsson, flugöryggisfulltrúi Atlanta, var staddur í Dubai og hélt þegar á vettvang í Sharjah, sem er í um 20 km fjarlægð. Í samtali við Morgunblaðið sagði hann það mildi að flugmennirnir skyldu sleppa ómeiddir.

Unnið var að því í gærkvöld að losa eldsneyti úr vélinni og var vettvangsrannsókn að hefjast. Metið verður í dag hvenær unnt verður að flytja flakið frá brautarendanum en eina braut flugvallarins er lokuð á meðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert