Draga frétt til baka

Fréttastofa Stöðvar 2 og Bylgjunnar dró í fréttum Bylgjunnar í dag til baka frétt Stöðvar 2 í gærkvöldi um að Ísland hefði verið komið á lista hinna viljugu þjóða fyrir ríkisstjórnarfund þann 18. mars 2003. Var þetta gert eftir að Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, krafðist afsökunarbeiðni frá Stöð 2.

Sagði fréttastofan í dag, að þau mistök hefðu verið gerð að tímasetning fréttar CNN um atburðinn hafi verið mislesin og ályktun sem dregin var af tímasetningunni sé því röng. Baðst fréttastofan velvirðingar á þessum mistökum.

Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, sendi í dag frá sér yfirlýsingu þar sem lýst er furðu á fréttaflutningi fjölmiðla undanfarna daga um aðdraganda þeirrar ákvörðunar íslenskra stjórnvalda að styðja innrás Bandaríkjamanna, Breta og fleiri þjóða í Írak í marsmánuði árið 2003.

Segir í yfirlýsingunni að oftar en ekki hafi fréttaflutningurinn einkennst af útúrsnúningum og rangfærslum. Mjög hafi skort á að nákvæmni, vandvirkni og sanngirni hafi verið gætt. Nýjasta dæmið um villandi málflutning hafi birst í fyrstu frétt í fréttatíma Stöðvar 2 miðvikudagskvöldið 26. janúar sl. Sá fréttaflutningur veki enn á ný alvarlegar spurningar um vinnubrögð einstakra fréttamanna.

„Þar var því haldið fram að málflutningur ríkisstjórnarinnar varðandi yfirlýsingu um stuðning við bandamenn hafi beinlínis verið rangur. Virðist sú ályktun dregin af tæplega tveggja ára gamalli frétt af vefsíðu CNN og því haldið fram að umrædd frétt hafi birst nokkru áður en ákvörðun íslenskra stjórnvalda um stuðning var tekin. Frétt CNN er birt kl. 23.29 þann 18. mars að austurstrandartíma í Bandaríkjunum en þá var klukkan 04.29 að morgni 19. mars hér á landi og liðinn meira en hálfur sólarhringur frá því ríkisstjórnarfundi lauk.

Er vandséð af umræddri frétt CNN hvernig hægt er að draga í efa yfirlýsingu forsætisráðherra frá 17. janúar sl. Þvert á móti staðfestir frétt CNN einmitt það sem fram kemur í yfirlýsingunni. Fréttamaður gerði enga tilraun til að hafa samband við forsætisráðuneytið við undirbúning fréttarinnar í því skyni að sannreyna frétt sína, en leyfði sér þó að lýsa yfir að málflutningur ríkisstjórnarinnar hafi beinlínis verið rangur.

Forsvarsmenn Stöðvar 2 hljóta í framhaldi af þessu að biðjast afsökunar," segir í yfirlýsingu Halldórs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert