Fischer laus úr haldi og á leið til Íslands

Bobby Fischer á Narita flugvelli snemma í morgun.
Bobby Fischer á Narita flugvelli snemma í morgun. AP

Bobby Fischer er á leið til Íslands ásamt unnustu sinni, Miyoko Watai. Honum var sleppt úr haldi í útlendingabúðum í Japan um klukkan eitt í nótt að íslenskum tíma. Benedikt Höskuldsson, sendiráðunautur, fór í búðirnar í morgun, fékk undirskrift Fischers í íslenskt vegabréf hans og gekk frá því.

"Hann var ágætlega stemmdur og hress," sagði Benedikt. "Ég benti honum á muninn á þessu vegabréfi og því sem hann fékk um daginn, að nú væri hann íslenskur ríkisborgari."

Suzuki, lögfræðingur Fischers, fór einnig í búðirnar til að fá undirskrift Fischers á yfirlýsingu um að hann félli frá málshöfðun á hendur japönskum stjórnvöldum. Þurfti síðan að bíða staðfestingar dómstóls í Tókýó á móttöku yfirlýsingarinnar, áður en Fischer var sleppt. Nokkur bið varð á lausn Fischers meðan verið var að hnýta lausa enda á milli skrifstofu í útlendingabúðunum og inni í Tókýó.

Íslenska sendiráðið bauð Fischer að aka honum til flugvallarins í bíl sendiráðsins. Stóð tæpt að Fischer næði flugvél SAS sem flytja átti hann til Kaupmannahafnar.

Þegar Fischer kom á flugvöllinn var hann alskeggjaður og með dökka derhúfu á höfði, í peysu og gallabuxum. Honum var ekki orða vant þegar hann ræddi við fréttamenn á flugvellinum.

„Þetta var ekki handtaka, þetta var mannrán," sagði hann. Þeir Bush (forseti Bandaríkjanna) og Koizumi (forsætisráðherra Japans) brugguðu þetta. Þeir eru stríðsglæpamenn. Það ætti að hengja þá." Skömmu síðar sagðist hann ánægður með að vera að fara frá Japan. „Japan er ágætis land en leiðtogarnir eru glæpamenn."

Þegar hann gekk að dyrum flugstöðvarbyggingarinnar snéri hann sér við, renndi niður buxnaklaufinni og bar sig að eins og hann ætlaði að kasta af sér vatni á vegginn.

Sæmundur Pálsson, vinur og stuðningsmaður Fischers, gerði ráð fyrir því að fara til Kaupmannahafnar í morgun og taka þar á móti Fischer.

Spurt var um málefni Fischers á blaðamannafundi í bandaríska utanríkisráðuneytinu í Washington í gær. Adam Ereli, aðstoðartalsmaður ráðuneytisins sagðist ekki vilja spá neinu um hvort eða til hvaða aðgerða kynni að verða gripið vegna Íslandsfarar Fischers.

Fram kom í japönskum fjölmiðlum í gær að Bandaríkjamenn hefðu lagt fram formlega framsalskröfu á hendur Fischer. Hiroyuki Hosoda, talsmaður japönsku ríkisstjórnarinnar, sagði hins vegar á blaðamannafundi að slík krafa hefði ekki komið fram svo vitað væri. Því hefði ekkert verið að vanbúnaði að sleppa Fischer.

Davíð Oddsson utanríkisráðherra segist ánægður með að Fischer losni úr prísundinni í Japan fyrir atbeina Íslendinga.

Bobby Fischer veifar til viðstaddra þegar hann gengur um borð …
Bobby Fischer veifar til viðstaddra þegar hann gengur um borð í flugvél SAS á Narita flugvelli. AP
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert