Nauðsynlegt að styrkja bergið við Kárahnjúkastíflu svo það þoli rennsli yfirfallsvatns

Líkanið í Tækniháskólanum í Zurich. Rennan og fossinn í Hafrahvammagljúfri …
Líkanið í Tækniháskólanum í Zurich. Rennan og fossinn í Hafrahvammagljúfri er næst á mynd en Hálslón er fjær.

Hönnun yfirfalls Kárahnjúkastíflu er langt komin en umfangsmikil prófun á rennsli stendur nú yfir í líkani af Hálslóni og Hafrahvammagljúfrum, sem prófessorar og doktorsnemar í straumfræði í Tækniháskólanum í Zurich hafa smíðað í samstarfi við íslenska og svissneska sérfræðinga.

Fram kemur á Kárahnjúkavef Landsvirkjunar, að Kárahnjúkavirkjun hafi upplega verið hönnuð þannig, að yfirfallsvatn Hálslóns rynni niður Desjarárdal og út í núverandi farveg Jökulsár á Dal neðan Hafrahvammagljúfra. Eitt af skilyrðum Sivjar Friðleifsdóttur, þáverandi umhverfisráðherra, fyrir því að heimila virkjunina á sínum tíma var að yfirfallið yrði á sjálfri Kárahnjúkastíflu og vatnið yrði látið renna í gljúfrið neðan stíflunnar.

Verkefni sérfræðinga var að koma yfirfallsvatninu sína leið áleiðis niður gljúfrin án þess að það holaði gljúfurbotninn eða að rofin yrðu skörð í gljúfurveggina. Markmiðið var að láta bununa renna beint niður á botn í stað þess að hún færi á sjálfa bergveggina öðru hvoru megin. Á Kárahnjúkavefnum segir, að þetta sé ekki alveg einfalt mál því Hafrahvammagljúfur séu aðeins um 50 metra breið. Fallhæð vatnsins sé um 90 metrar (Dettifoss er 44 metra hár), algengt rennsli á yfirfalli verði 150-200 rúmmetrar á sekúndu, eða sem svarar til helmings meðalrennslis í Dettifossi að sumarlagi og vatnið renni á 90-120 km hraða á klukkustund þegar það steypist niður í gljúfrið. Orkan í þessum fossi sé gríðarleg og rofmátturinn eftir því. Markmið hönnunar mannvirkisins og líkanprófunar í Zürich sé að eyða sem mestu af orkunni úr vatninu og verja gljúfrin.

Fram kemur, að tilraunir og athuganir sýni að óhjákvæmilegt sé að gera ráðstafanir í gljúfrinu sjálfu til að styrkja og verja bergið svo það þoli til lengdar rennsli yfirfallsvatnsins. Nú sé talið heppilegast að steypa í gljúfurbotninn sjálfan undir manngerða fossinum og styrkja bergvegginn beggja vegna fossins með sprautusteypu og bergboltum, jafnvel að steypa kápu þar sem áraunin verður mest á bergvegginn.

Þá telji sérfræðingarnir nauðsynlegt að reisa 15-20 metra háa fyrirhleðslu úr stórgrýti, hugsanlega steypustyrkta, í gljúfrinu, 150 metrum neðan við þann stað þar sem vatnið rennur út í gljúfrið, til að tryggja að fossinn lendi ekki beint á klöpp heldur á vatni, eða allt að 22ja metra djúpu lóni sem myndast og draga þannig úr rofmætti bununnar úr rennunni frá Hálslóni.

Kárahnjúkavefur Landsvirkjunar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert