Grænmetisréttir í hátíðarkvöldverði vekja athygli

Frá hátíðarkvöldverðinum í Listasafni Reykjavíkur í gærkvöldi.
Frá hátíðarkvöldverðinum í Listasafni Reykjavíkur í gærkvöldi. mbl.is/Sverrir

Það vakti athygli erlendra blaðamanna, sem eru hér í för með A.P.J. Abdul Kalam, forseta Indlands, að einungis voru grænmetisréttir á borðum í hátíðarkvöldverði, sem íslensku forsetahjónin buðu til í gærkvöldi í Hafnarhúsinu, Listasafni Reykjavíkur. Indverski forsetinn neytir ekki kjöts.

Í frétt, Shibi Alex Chandy, fréttamaður IANS fréttastofunnar, sendi frá sér í morgun, segir að matseðillinn hafi komið bæði íslenskum gestum og fylgdarliði forsetans á óvart. Á boðstólum voru glóðaðir tómatar með snjóbaunum, rauðlauk og spírusalati, og í aðalrétt var eggaldin með jurta-mozzarella, pestó, klettasalati og engifer-hvítlaukssósu. Loks var boðið upp á skyrtertu með rabarbara og blönduðum berjum.

Haft er eftir Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, að þetta sé í fyrsta skipti í sögu íslenska forsetaembættisins, sem eingöngu er boðið upp á grænmetisrétti í hátíðarkvöldverði.

Fréttamaðurinn segir, að íslenskar máltíðir án þess að fiskur eða lambakjöt séu á borðum, séu sjaldgæfar. Því hafi matseðillinn komið íslenskum gestum spánskt fyrir sjónir. En haft er eftir einum gestinum að maturinn hafi verið afar bragðgóður.

Frétt IANS

Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, A.P.J. Abdul Kalam, forseti Indlands og Ólafur …
Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, A.P.J. Abdul Kalam, forseti Indlands og Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í Listasafni Reykjavíkur í gærkvöldi. mbl.is/Sverrir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert