Íslandsmeistarar Víkings í borðtennis lausir úr prísundinni

Íslandsmeistarar Víkings í borðtennis. Myndin er tekin af vef Borðtennissambands …
Íslandsmeistarar Víkings í borðtennis. Myndin er tekin af vef Borðtennissambands Íslands.

Íslandsmeistarar Víkings í borðtennis, sem kyrrsettir voru á flugvellinum í Úkraínu í gærmorgun, hafa verið leystir úr prísund sinni og eru á leið til borgarinnar Sumi, um 300 kílómetra frá Kiev. Pétur Stephensen, formaður borðtennisdeildar Víkings, og faðir eins piltanna, sagði Íslandsmeistarana hafa þurft að borga tæpa 500 dollara fyrir vegabréfsáritun og þeim verið leyft að halda ferð sinni áfram um klukkan 8 að íslenskum tíma í morgun. Líklegt þykir að þeir taki þátt í Evrópukeppni félagsliða í borðtennis á morgun.

Pétur sagði í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins, að þeir Matthías Stephensen, Tryggvi Áki Pétursson og Magnús Magnússon, hafi ekki verið með vegabréfsáritun til landsins og hafi þeir því verið hnepptir í gæslu á flugvellinum í gærmorgun. Fengu þeir hvorki vott né þurrt í allan gærdag. Þótti Pétri undarlegt að vegabréfsáritun hafi þurft til landsins en bætti við að drengirnir, sem eru um tvítugt, hafi ferðast víða um heim í gegnum árin. Hafi þeir aldrei kynnst öðru eins.

Að sögn Péturs, sem í allan gærdag vann að lausn drengjanna, var niðurstaðan sú að þeir borguðu 165 dollara, rúmar 10.000 krónur, fyrir vegabréfsáritun í hvert vegabréfanna. Gildir hún í þá fjóra daga sem drengirnir þurfa að vera úti til að taka þátt í Evrópukeppni félagsliða í borðtennis, sem fram fer um helgina í borginni Sumi.

Leigubíll sótti piltana í morgun og héldu þeir áleiðis til borgarinnar. Bjóst Pétur við að þeir komi þangað innan skamms. Íslandsmeistarar Víkings áttu að leika tvo leiki í dag. Pétur sagði þá þreytta og slæma í baki eftir dvölina á flugvellinum og hafi verið farið fram á það við mótshaldara, að þeir fái að keppa við meistaralið Úkraínu, Sumoi, á morgun. Bjóst hann fastlega við að það gangi eftir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert