Björn Björnsson látinn

Björn Björnsson, fyrrverandi aðstoðarforstjóri Íslandsbanka.
Björn Björnsson, fyrrverandi aðstoðarforstjóri Íslandsbanka. Þorkell Þorkelsson

Björn Björnsson, fyrrverandi aðstoðarforstjóri Íslandsbanka, lést í gær, sunnudag, á fimmtugasta og sjöunda aldursári.

Björn fæddist á Akureyri 24. ágúst 1949, sonur Björns Jónssonar, forseta Alþýðusambands Íslands, alþingismanns og ráðherra, og Þórgunnar K. Sveinsdóttur húsfreyju.

Björn ólst upp á Akureyri og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1969 og prófi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 1973.

Að loknu námi hóf Björn störf hjá kjararannsóknanefnd en gerðist síðar hagfræðingur Alþýðusambands Íslands og gegndi því starfi frá 1981-87 er hann gerðist aðstoðarmaður fjármálaráðherra. Hann var bankastjóri Alþýðubankans 1988-89, bankastjóri hjá Íslandsbanka 1990-93 og eftir það framkvæmdastjóri hjá Íslandsbanka, þar til hann varð aðstoðarforstjóri í ársbyrjun 2003. Hann lét af störfum í bankanum fyrr á þessu ári.

Björn gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum. Hann var í stjórn Félags viðskipta- og hagfræðinga 1979-81 og varaformaður þar 1980-81. Hann sat í kauplagsnefnd 1984-87 og í bankaráði Seðlabanka Íslands 1986-88. Þá var hann í milliþinganefnd um staðgreiðslu opinberra gjalda árið 1987, í stjórn Sambands íslenskra viðskiptabanka 1988-90 og í endurskoðunarnefnd Norræna fjárfestingarbankans 1989-94. Hann sat einnig um tíma í stjórn Atvinnutryggingasjóðs útflutningsgreina, Reiknistofu bankanna og Glitnis og í stjórn Fiskveiðisjóðs frá 1990-92 og frá árinu 1994. Hann var í framkvæmdastjórn Iðnþróunarsjóðs 1992-95, sat í stjórn Greiðslumiðlunar frá árinu 1992 og var formaður stjórnar Verðbréfamarkaðar Íslandsbanka frá sama tíma.

Björn kvæntist Guðnýju Irene Aðalsteinsdóttur 1974 og eignuðust þau tvær dætur, Bryndísi og Ásdísi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert