Áhyggjuefni að tekið skuli undir órökstudda gagnrýni á fjármálakerfið

Rætt var um efnahagsmál á Alþingi í dag.
Rætt var um efnahagsmál á Alþingi í dag. mbl.is/Ásdís

Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, sagði á Alþingi í dag að það væri áhyggjuefni hversu viljugir sumir fjölmiðlar og stjórnarandstaðan hefðu verið til að taka undir ýmsa órökstudda gagnrýni, sem nokkrir erlendir aðilar hefðu haft uppi á íslenska fjármálakerfið. Í hópi þessara erlendu aðila væru meðal annars bankar og greiningardeildir banka, sem væru í harðri samkeppni við íslenska aðila og gagnrýnin væri hreinlega sett fram í því skyni að koma höggi á samkeppnisaðila.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hóf umræðu um efnahagsmál utan dagskrár á Alþingi í dag og vísaði m.a. til þess að tölur um skuldir þjóðarinnar væru ógnvekjandi; skuldirnar hefðu verið komnar í 294% af landsframleiðslu í lok síðasta árs. Ljóst væri af ummælum alþjóðlegra matsfyrirtækja, að hagkerfið væri svo yfirspennt að það þyldi vart illt umtal í erlendum fjölmiðlum.

Ingibjörg Sólrún sagði, að þegar mat alþjóðlegra matsfyrirtækja á ríkissjóði væri skoðað kæmi í ljós, að það væri einkum fernt sem fyrirtækin hefðu áhyggjur af. Í fyrsta lagi gríðarlegri skuldasöfnun þjóðarbúsins, í 2. lagi að of mikið lagt á peningamálastefnuna en ríkisfjármál sætu á hakanum, í þriðja lagi of lítilli upplýsingagjöf um samsetningu og áhættuvarnir erlendra skulda og í fjórða lagi of miklum væntingum, m.a. vegna stóriðjuframkvæmda. Spurði Ingibjörg Sólrún m.a. hvernig stjórnvöld hygðust bregðast við þessari gagnrýni.

Halldór sagði, að með fullri virðingu fyrir matsfyrirtækjunum, sem vitnað væri til, þá væri það mat ríkisstjórnarinnar að ástand efnahagsmála hér á landi sé gott.

Halldór sagði sérkennilegt að hlusta á formann Samfylkingarinnar tala eins og hér væri allt í kaldakoli. Hann hefði vænst þess að farið yrði að fjalla um þessi mál af meiri hófsemd og virðingu fyrir sannleikanum en raun bæri vitni.

Halldór sagði að hagvöxtur frá árinu 1995 væri yfir 60%, kaupmáttur heimilanna hefði aukist álíka, skuldir ríkisins væru óvíða minni en hér, afkoma ríkissjóðs óvíða betri og atvinnuleysi hverfandi. Þetta væru staðreyndir málsins og það viðurkenndu þeir, sem besta þekkingu hefðu á þessum málum, eins og sérfræðingar OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Halldór sagði rétt að skuldir fyrirtækja og einstaklinga hefðu aukist en hafa yrði í huga að eignir fyrirtækja og einstaklinga hefðu aukist gífurlega og taka yrði mikil umsvif bankanna á erlendum vettvangi inn í þá mynd. Halldór sagði að hrein eign heimilanna í húsnæði og lífeyrissjóða hefði aukist um 1200 milljónir króna á 5 árum. Skuldir heimila næmu nú 35% af eignum þeirra og hefðu farið lækkandi á síðustu árum.

„Ég tel að það sé áhyggjuefni hversu viljugir ýmsir fjölmiðlar, og stjórnarandstaðan hefur verið, og hlaupa upp til handa og fóta og taka undir ýmsa órökstudda gagnrýni sem að nokkrir erlendir aðilar hafa verið að halda á lofti, þar á meðal bankar og greiningardeildir banka, sem eru í harðri samkeppni við íslensku bankana sem er hreinlega sett fram í því skyni að koma höggi á sína samkeppnisaðila. Slíkt háttalag er ekki til þess að auðvelda íslenskum fjármálastofnunum að koma á framfæri réttmætum leiðréttingum á þessum rangfærslum. Það er hins vegar rétt að sanngjörn gagnrýni sem byggir á staðreyndum og yfirveguðu mati er af hinu góða og á fullan rétt á sér og við verðum að bregðast við með því að koma á framfæri réttum upplýsingum um góða stöðu íslenskra efnahagsmála," sagði Halldór.

Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði m.a. í umræðunni, að rétt væri að skoða það í fullri alvöru hvort Íslendingar eigi ekki að ganga í Evrópusambandið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert