Líkamsárásir grófari en áður og meira um vopn

„Ég sá sveðjuna þegar ég var í partíinu, en ég man ekkert eftir því að hafa fengið hana í höfuðið. Ég fann bara þungt högg og vissi ekki af mér fyrr en ég lá í jörðinni,“ segir Einar Ágúst Magnússon í samtali við Morgunblaðið, en hann varð fyrir tilefnislausri líkamsárás í október sl. þar sem höggvið var ítrekað í höfuð hans með sveðju.

Tölum ber ekki saman um hvort almennt sé að draga úr ofbeldi eða ekki. Komum á bráða- og slysadeild LSH hefur fjölgað um 10% á milli ára og hefur komum vegna áverka af völdum ofbeldis fjölgað í samræmi við það. Samkvæmt tölfræði lögreglunnar fækkaði ofbeldisbrotum hins vegar um 11% árið 2004 samanborið við meðalfjölda frá 2000 til 2003.

Þó virðist ekki um það deilt að líkamsárásir séu að verða grófari. „Miklu meira er um vopnaburð en áður var og þá er ég fyrst og fremst að tala um hnífa, en einnig barefli,“ segir Hörður Jóhannesson, yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni í Reykjavík.

Hann segir að skýringuna á grófara ofbeldi megi meðal annars rekja til aukinnar neyslu örvandi efna, einkum amfetamíns. „Við erum með nýleg dæmi um það, frá þessu ári, að árásarmenn voru undir áhrifum slíkra efna.“ Tölfræði lögreglu sýnir rúmlega 64% fleiri fíkniefnabrot árið 2004 en meðalfjölda á árunum 2000 til 2003. Munar þar mikið um fjölgun brota vegna vörslu eða neyslu fíkniefna, en árið 2004 voru þau tæplega 79% fleiri en árin á undan. „Við erum farin að sjá miklu meira af fíkniefnum, hvort sem það á við um slys, sjúkdóma eða ofbeldi,“ segir Ófeigur Tryggvi. „Þau ná yfir allt litróf mannlegra þjáninga og því miður allan aldur – ótrúlega langt niður en ótrúlega lítið upp. Fólk lifir ekki lengi á þessum sterku lyfjum.“

Fjallað er um þessi mál í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert