Tvíhöfði hugsanlega á dagskrá Rásar 2 í vetur

Tvíhöfði í stúdíói fyrir tveimur árum.
Tvíhöfði í stúdíói fyrir tveimur árum. Morgunblaðið/ Ásdís Ásgeirsdóttir

Þeir Sigurjón Kjartansson og Jón Gnarr hafa lýst yfir áhuga sínum á því að endurvekja útvarpsþáttinn Tvíhöfða á Rás 2, en þar hóf þátturinn göngu sína árið 1987. Þeir eiga nú í viðræðum við Rás 2 og gæti svo farið að Tvíhöfði yrði sendur út einu sinni í viku, á laugardegi eða sunnudegi. Sigrún Stefánsdóttir, dagskrárstjóri Rásar 2, segir þá Tvíhöfðamenn hafa átt frumkvæðið að viðræðunum og lýst því yfir að Rás 2 hentaði þættinum best.

Sigrún segir Rás 2 hafa mikinn áhuga á því að fá þá til starfa og nú sé verið að leita að kostun. Hún sé mjög spennt fyrir því að hafa Tvíhöfða á dagskrá Rásar 2 en viðræður séu þó á byrjunarstigi.

Tvíhöfði verður líklega um klukkustund að lengd, hluti efnisins forunninn og annað í beinni útsendingu. Ekkert er þó enn ákveðið um gerð þáttarins. Sigrún vonast til þess að útsendingar á Tvíhöfða hefjist í haust.

Morgunútvarpið verður með breyttu sniði í vetur. Hrafnhildur Halldórsdóttir veðrur í stúdíói í Reykjavík og Gestur Einar Jónasson á Akureyri, en Sigrún segir marga sakna Gests. Lítið hafi heyrst í honum á Rás 2 í vetur og nú verði bragarbót gerð á því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert