Marglyttur skaða eldisfisk Sæsilfurs í Mjóafirði

Frá Mjóafirði
Frá Mjóafirði mbl.is/Þorkell
Eftir Berg Ebba Benediktsson og Kristínu Ágústsdóttur
MIKIÐ tjón varð er marglyttur komust inn í laxeldiskvíar hjá fiskeldisstöðinni Sæsilfri í Mjóafirði í fyrrinótt. Svo virðist sem sterkur hafstraumur hafi fleytt marglyttunum upp að kvíunum og við það hafi fiskurinn skaðast. Unnið var við það í gær að koma laxinum til slátrunar í Neskaupstað.

Að sögn Jóns Kjartans Jónssonar, framkvæmdastjóra Laxeldis hjá Samherja, er ágangur marglyttna vandamál sem reynt er að sporna við með varnarbúnaði.

Lax í öllum fjórtán kvíum stöðvarinnar varð fyrir skaða er fálmarar marglyttnanna brenndu hann. Fiskurinn hafi verið í hættu og því hafi sú ákvörðun verið tekin að slátra honum. "Nú erum við að reyna að lágmarka og meta tjónið," segir hann og treystir sér ekki til að fullyrða hversu mikið tjónið er, né hvort atvikið muni hafa áhrif á rekstur stöðvarinnar í framtíðinni.

Í gær hófst flutningur á fiskinum til slátrunar í Neskaupstað, en 20 til 30 manns unnu við slátrunina í gær. "Við erum að bjarga verðmætum og það verður unnið samfleytt á meðan við höfum fisk til slátrunar," segir Hákon Viðarsson, gæða- og starfsmannastjóri í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Unnið verður á vöktum og hafa vaktirnar m.a. verið mannaðar með starfsmönnum í loðnuverksmiðjunum á Seyðisfirði og í Neskaupstað ásamt skipverjum af Bjarti NK og Barða NK. "Hver einasti maður skiptir máli. Við ættum að geta slátrað um 30 til 40 þúsund löxum á sólarhring ef allt gengur vel," segir hann en gert er ráð fyrir að nokkra daga taki að slátra þeim löxum sem sköðuðust.

Í HNOTSKURN

Til stóð að rekstri Sæsilfurs yrði hætt árið 2008 en frá því var horfið í kjölfar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar að bæta rekstrarumhverfið.

Á þessu ári var ráðgert að slátra um 4.000 tonnum af eldislaxi hjá fyrirtækinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert