Hæstiréttur styttir dóm yfir kynferðisglæpamanni

Hæstiréttur hefur stytt fangelsisdóm yfir manni sem var fundinn sekur um kynferðisbrot gagnvart fimm stúlkubörnum í Héraðsdómi Reykjavíkur. Í héraðsdómi var maðurinn dæmdur í tveggja ára fangelsi en í Hæstarétti var dómurinn styttur í átján mánaða fangelsi að teknu tilliti til dómaframkvæmdar Hæstaréttar í málum sem varða hliðstæð brot. Var manninum gert að greiða stúlkunum samtals 2,6 milljónir króna í miskabætur.

Maðurinn var jafnframt dæmdur fyrir að hafa í vörslum sínum 210 myndir sem sýna börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt. Af þeim eru á annan tug mynd af stúlkunum sem hann beitti kynferðislegu ofbeldi.

Maðurinn er fæddur árið 1959. Hefur hann ekki áður sætt refsingu svo kunnugt sé, að því er segir í dómi héraðsdóms. Þar kemur fram að brot mannsins eru alvarleg, en hann hefur verið sakfelldur fyrir misjafnlega gróf kynferðisbrot gagnvart fimm ungum stúlkum. Eru brotin trúnaðarbrot, en þau hafa beinst að stúlkum er honum var beint og óbeint treyst fyrir þegar þær voru litlar. Þá hefur maðurinn skýrt háttsemi sína gagnvart tveimur stúlknanna á þann veg að hann hafi verið að hefna sín á stúlkunum. Er sú háttsemi ákærða sérlega ámælisverð þar sem þær voru einungis börn er atvikin áttu sér stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert