Dæmdur aftur í fimm ára fangelsi fyrir nauðgun

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur.

Karlmaður á sextugsaldri, Jón Pétursson, var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdur í fangelsi í fimm ár fyrir að hafa haldið fyrrverandi sambýliskonu sinni nauðugri, beitt hana grófu kynferðisofbeldi og öðru ofbeldi í desember 2006. Jón var í dæmdur í fimm ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir ítrekaðar nauðganir og hrottalegar líkamsárásir gegn fyrrverandi unnustu sinni auk frekari líkamsárása gegn annarri konu sem var sambýliskona hans um tíma. Hæstiréttur staðfesti þann dóm nú í apríl.

Jón var dæmdur til þess að greiða konunni 1,5 milljón króna í skaðabætur auk þess sem honum var gert að greiða tæplega 1,6 milljónir í sakarkostnað. Til frádráttar refsingu kemur gæsluvarðhald í 53 daga.

Jón var ákærður fyrir að hafa nauðgað konunni tvívegis og beitt hana annarskonar ofbeldi. Héraðsdómur taldi ósannað að Jón hefði nauðgað konunni oftar en einu sinni en sakfelldi hann að öðru leyti í samræmi við ákæru. Segir dómurinn, að brot Jóns gagnvart konunni hafi verið sérlega hrottafengin og langvinn og valdið henni miklum líkamlegum áverkum. Þá hafi hann notað kjötöxi og búrhníf í atlögunni. Segir dómurinn að gögn málsins beri með sér að brot Jóns hafi haft í för með sér alvarlegar líkamlegar og andlegar afleiðingar fyrir konuna.

Þá segir dómurinn, að maðurinn hafi í október 2006 verið dæmdur í 5 ára fangelsi m.a. fyrir nauðgun, frelsissviptingu og líkamsárás gagnvart þrem konum og hafi brot hans verið einkar svívirðilegt í því ljósi.

Í dómnum er vísað til geðrannsóknar, sem gerð var á Jóni í desember en þar kemur fram að hafi orðið fyrir höfuðslysi fyrir sjö árum. Sú spurning hafi vaknað hvort Jón hafi orðið fyrir framheilaskaða í slysinu. Framheilaskaði geti haft í för með sér hömluleysi, dómgreindarbrest og ákveðnar persónuleikabreytingar. Héraðsdómur segir hins vegar að lýsingar á hegðunar­breyting­um Jóns í kjölfar slyssins líkist ekki algengum afleiðingum framheilaskaða. Rann­sóknir í tengslum við geðrannsóknina hafi engin merki sýnt um heilaskaða í kjölfar áverka. Miklu líklegra sé að breytingar sem orðið hafi á Jóni undanfarin ár megi rekja til mjög mikillar áfengisneyslu hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert