200 unglingar sækja landsmót æskulýðsfélaga

Um 200 unglingar munu sækja landsmót æskulýðsfélaga sem haldið verður undir yfirskriftinni „XXX Ekkert mál" í Vatnaskógi um helgina. Mótið, sem hefst í kvöld, er ætlað unglingum sem taka þátt í æskulýðsstarfi þjóðkirkjunnar og koma þeira allstaðar af landinu á mótið. Markmið þessara landsmóta er að gefa unglingum af öllu landinu vettvang til að skiptast á skoðunum og kynnast hver öðrum.

Samkvæmt upplýsingum frá forsvarsmönnum landsmótsins er með yfirskrift mótsins „XXX Ekkert mál" verið að vekja athygli unglinganna á þeirri þversögn sem einkennir oft afstöðu fólks til mála sem snerta það og umhverfið sem það lifirí. Þannig virðist hlutirnir „ekkert mál” þó svo að hinn innri maður sé allur í uppnámi. Þversögnin felst í því að fólk lætur innri skoðun og tilfinningar ekki í ljós, en heldur þeim út af fyrir sig. Þetta eigi við hvort heldur um er að ræða trú eða stjórnmál, kynlíf eða heimsfrið og yfirleitt alla afstöðu til lífsins.

Undirtitill mótsins: „Þú átt valið - taktu af skarið" er um leið megininntak mótshaldsins, en markmiðið er að hvetja unglingana til þess að gera sjálfum sér og öðrum ljóst hvað þau vilja og velja. Það eigi bæði í þröngu samhengi, eins og til dæmis hvað eigin líkama varðar og í víðu samhengi eins og til dæmis hvað ástandið í Ísrael varðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert