Hugbúnaður á íslensku hafi ávallt forgang

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í gær að tillögu menntamálaráðherra að beina því til ríkisaðila að hugbúnaður á íslensku hafi ávallt forgang fram yfir annan hugbúnað hafi slíkt ekki veruleg aukin útgjöld í för með sér.

Jafnframt hefur menntamálaráðherra hafið undirbúning að því að innan tveggja ára verði allur almennur hugbúnaður í skólakerfinu og stofnunum á vegum menntamálaráðuneytisins á íslensku, auk þess sem menntamálaráðuneytið mun sjálft nýta íslenskan hugbúnað í þeim mæli sem kostur er. Unnið verður að þessum breytingum samhliða eðlilegri endurnýjun á vél- og hugbúnaði og innan venjulegs fjárhagsramma stofnana og sveitarfélaga.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra sagði í samtali við Morgunblaðið að lagt væri til að ríkisstofnanir sem stæðu frammi fyrir endurnýjun hugbúnaðar síns kæmu til með að nota íslenskan hugbúnað. Þetta mundi ekki hafa aukakostnað í för með sér fyrir ríkissjóð, því Microsoft væri tilbúið að leggja út í þýðingar ef fyrir lægi að dágóður fjöldi ríkisstofnana ætti hlut að máli.

Mikilvægi íslenskunnar undirstrikað

"Við sjáum fram á að geta notað íslenskan hugbúnað í íslenskum ríkisstofnunum án þess að það hafi í för með sér aukakostnað fyrir ríkissjóð. Það sem að mínu mati skiptir mestu máli er að við erum að undirstrika mikilvægi íslenskunnar," sagði Þorgerður Katrín.

Hún sagði að tölvunotkun væri orðin mjög mikil og það væri auðvitað jákvæð þróun.

"Á hinn bóginn verðum við að reyna að vernda okkar góða móðurmál og ef það fæst með tiltölulega litlum tilkostnaði hefur mikið áunnist," sagði Þorgerður Katrín enn fremur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert