Læknar Lakers gerðu mistök segir Karl Malone

Karl Malone í Los Angeles Lakers hindrar Fred Jones leikmann …
Karl Malone í Los Angeles Lakers hindrar Fred Jones leikmann Indiana Pacers fyrr í vetur. AP

Karl Malone, framherji NBA-liðsins Los Angeles Lakers, segir við ESPN-fréttastofuna í Bandaríkjunum að læknar liðsins hafi greint meiðsli í hné hans með röngum hætti og það hafi orðið til þess að seinka bata hans um nokkrar vikur. Malone segir að í upphafi hafi læknar liðsins talið að meiðslin væru minniháttar en eftir nokkrar vikur í endurhæfingu hafi ástandið versnað með hverjum deginum sem leið. “Ég fékk síðan að vita það að liðband í hnénu hafi trosnað og þær æfingar sem ég var að stunda gerðu ástandið enn verra,” segir hinn fertugi Malone, sem hefur aðeins leikið 24 leiki á leiktíðinni vegna meiðsla, en hann ætlar sér að leika gegn Minnesota Timberwolves á morgun, föstudag.

Malone gerði samning við Lakers í þeirri von að hann gæti orðið NBA-meistari í fyrsta sinn, en hann lék í 18 ár með Utah Jazz. Malone fær “aðeins” um 70 millj. kr. í laun frá Lakers en hann hefði getað fengið rúmlega 2 milljarða kr. á ári hjá Utah hefði hann kosið að leika með liðinu áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert