Eldingu laust niður í Fokker-flugvél: Farþegar fundu fyrir högginu

Eldingu laust niður í Fokker-flugvél Flugfélags Íslands skömmu eftir flugtak frá Reykjavíkurflugvelli á laugardag og var henni þegar snúið til baka. Um borð voru 28 farþegar auk áhafnar. Árni Gunnarsson, sölu- og markaðsstjóri FÍ segir að engin hætta hafi verið á ferðum, flugvélin hafi staðist skoðun flugvirkja og sé nú í fullri notkun.

Flugvélin lagði af stað klukkan 16.25 áleiðis til Ísafjarðar. Eldingunni laust niður eftir nokkurra mínútna flug. Árni segir að vélin sé búin eldingavara og öryggi hennar því engin hætta búin. Starfsreglur mæli engu að síður fyrir um að vélinni skyldi snúið við og lent við fyrsta tækifæri. "En það er í raun og veru engin hætta á ferðum því vélarnar eru útbúnar fyrir þetta," segir Árni. Vélin hefði lent á Reykjavíkurflugvelli um klukkan 17. Fljótlega eftir lendingu hefði flugstjóri safnað farþegum saman í flugstöðinni og útskýrt fyrir þeim hvað hefði gerst. Aðspurður segir Árni að þegar eldingu lýstur niður í flugvél sjái farþegar yfirleitt ljósleiftur og finni fyrir höggi, álíka þungu og getur gerst í ókyrrð. Hann telur þó að flestir farþeganna hafi lítið orðið varir við eldinguna. Slíkt gerist endrum og sinnum, hugsanlega einu sinni á ári hjá FÍ, að sögn Árna.

Klukkan 17.40 fór önnur Fokker-flugvél af stað til Ísafjarðar en fimm farþegar vildu ekki fara um borð. Árni segist ekki hafa öruggar upplýsingar um hvers vegna fólkið ákvað að verða eftir í Reykjavík. Hugsanlega hafi töfin verið of löng en væntanlega hafi flughræðsla ráðið í flestum tilfellum. Haft verði samband við fólkið og því boðin áfallahjálp.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert