Afganar taka landslén í notkun

Afganar hafa tekið í notkun landslénið .af fyrir vefsvæði og póstföng notenda þar í landi. Um er að ræða mikilvægt skref fyrir landið þar sem netnotkun var bönnuð í tíð talibanastjórnarinnar þar í landi, að sögn BBC. Mohammad Masoom Stanakzai, fjarskipta- og samgöngumálaráðherra landsins, segir að Afganar hafi endurheimt hluta af fullveldi sínu því lénið sé fáni landsins á Netinu.

Landslénið .af var skráð hjá IANA, sem annast skráningar á alþjóðlegum lénum, í október 1997. Sá sem skráði lénið hjá IANA var Abdul Razeeq, afganskur útlagi. Hann er sagður hafa horfið og því varð ekki af frekari áformum um útgáfu lénsins.

Fyrstu vefsvæðin sem hyggjast notfæra sér lénið .af verða afganska samgönguráðuneytið og þróunarstofnun á vegum Sameinuðu þjóðanna, en stofnunin aðstoðaði afgönsk yfirvöld í uppsetningu á léninu.

Í tíð talibana í Afganistan var öllum öðrum en stofnunum ríkisins bannað að nota tölvupóst eða vefsvæði. Dauðadómur var við brot á lögum talibana um Netið. Nokkur netkaffihús eru nú rekin í Kabúl, höfuðborg landsins, en meirihluti þjóðarinnar býr við fátækt og hefur því ekki efni á að nota Netið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert