Uppruni ruslpósts

Sá sem hefur orðið fyrir endalausu flæði ruslspósts í formi tölvupósts er gjarnan afar undrandi á því hvar sendendur hafi fengið netfang viðkomandi. Vísindamenn við stofnunina Center for Democracy and Technology hófu að leita svara við þessari spurningu síðastliðið sumar. Þeir komust að því að flest netföngin sem sendendur ruslpósts komust yfir, voru birt á vefsíðum eða í fréttahópum á Netinu.

Áætlað er að um 40% af umferð tölvupósts sé ruslpóstur. Þetta skapar fyrirtækjum mikinn vanda og tapa þau milljörðum punda í framleiðni.

Til að kanna uppsprettu ruslpóstsins birtu vísindamennirnir hundruð netfanga og biðu í hálft ár til að sjá hvaða netföng fengu mestan ruslpóst.

Vísindamennirnir komust að því að sendendur ruslpósts notuðu forrit á borð við svonefnd vélmenni eða köngulær sem skrásetja netföng sem birt eru bæði á persónulegum vefsíðum sem og vefsíðum fyrirtækja. Ein leið til að koma í veg fyrir að forritin skrái hjá sér netfang er að birta það með bókstöfum, þannig að í stað „bladamadur@mbl.is“ sé „bladamadur hjá mbl punktur is“. Önnur aðferð er að setja í stað táknanna í netfanginu HTML-tákn. Netföng sem birt voru með þessum hætti fengu ekki einn einasta ruslpóst.

Á sex mánaða tímabili fengu vísindamennirnir ríflega 10.000 skeyti í tölvupósti á þau 250 netföng sem þeir bjuggu til. Um 1.600 skeytanna voru lögmæt. Ríflega 97% skeytanna voru send á netföng sem birt voru á almennum vefsíðum. Fyrirtæki sem höfðu hlekk í stór vefsetur á borð við AOL eða Yahoo fengu mun meira magn ruslpósts en önnur.

AOL hefur skorið upp herör gegn sendendum ruslpósts og hefur hafið málaferli gegn tæplega 20 einstaklingum og fyrirtækjum sem AOL segir hafa sent ruslpóst til viðskiptavina AOL, að því er segir í frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert