Óvenjulegt tölvuveirusmit nýtir sér Windows-galla

Bandarískar stjórnarstofnanir og hugbúnaðarfyrirtæki hafa í kvöld varað við tölvuveirusmiti sem veldur því að tölvur endurræsa sig með dularfullum hætti og samræmir rafræna árás á hugbúnaðarfyrirtækið Microsoft. Sérfræðingar segja að veirusmitið, sem nýtir sér óvenjulega hættulegan galla í Windows stýrikerfinu, trufli ekki umferð um Netið með alvarlegum hætti enn sem komið er en svo kunni að fara því búist sé við að smitið breiðist hratt út í nótt.

Sérfræðingar uppgötvuðu veiruna um klukkan 19 í kvöld og í kjölfarið bárust fréttir af tugum þúsunda smitaðra tölva í háskólum, fyrirtækjum og heimilum. Svo virðist sem veiran breiðist mjög hratt úr. Smitaðar tölvur voru forritaðar til að ráðast sjálfkrafa á vefsíðu sem Microsoft setti upp á laugardag. Netsíðan, windowsupdate.com, er notuð til að dreifa hugbúnaðarviðbótum til viðskiptavina Microsoft sem ætlað er að verjast veirusmiti af þessu tagi.

Veiran hefur verið kölluð LovSan vega skilaboða sem koma fram í sýktum tölvum: I just want to say LOVE YOU SAN! Sérfræðingar hafa einnig fundið önnur skilaboð inni í veiruforritinu sem virðist beint gegn Bill Gates stjórnarformanni Microsoft: billy gates why do you make this possible? Stop making money and fix your software!

Bandarísk stjórnvöld og tölvusérfræðingar hafa búist við veirusmiti af þessu tagi frá því um miðjan júlí eftir að Microsoft viðurkenndi að gallinn kæmi fram í nánst öllum útgáfum af Windows stýrikerfinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert