Fengu háðungarverðlaun fyrir rannsóknir á mörgæsaskít

Vísindalegar rannsóknir á gervieistum fyrir gelda hunda, engisprettum sem horfa á Star Wars og skít úr mörgæsum hafa hlotið hin eftirsóttu Ig Nobel háðungarverðlaun. Eru þessi verðlaun veitt fyrir vísindaafrek sem „hvorki er hægt né æskilegt að endurtaka“, og voru afhent við hátíðlega athöfn í Harvardháskóla.

Rannsókn er nefnist „Þrýstingur sem myndast þegar mörgæsir kúka - útreikningar á hægðum fugla“, eftir vísindamenn í Þýskalandi og Ungverjalandi, hlaut verðlaun. Einnig fengu breskir vísindamenn verðlaun fyrir að rannsaka starfsemi heilafruma í engisprettum sem voru látnar horfa á brot úr Star Wars.

Svo og uppfinningamaður við MIT sem bjó til vekjaraklukku sem hleypur í burtu og felur sig þegar hún hringir. Bókmenntaháðungarverðlaunin hlutu allir þeir Nígeríumenn sem hafa sent milljónir tölvuskeyta þar sem viðtakandinn er sagður geta komist yfir stórar fjárhæðir en þurfi fyrst að senda greiðslu fyrir óverulegum kostnaði.

Ig Nobel-verðlaunin eru veitt árlega í kjölfar Nóbelsverðlaunanna. Til þeirra var stofnað 1991 af Marc Abrahams, ritstjóra vísindatímarits, til að vekja athygli á mörgum þeim furðulegu verkefnum sem vísindamenn um heim allan taka sér fyrir hendur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert