Netglæpamenn ráðast á „milljóndala" vefsíðuna

Alex Tew, 21 árs breskur háskólanemi, komst í fréttirnar fyrir skömmu því hann hafði sett upp vefsíðu sem hann þénaði eina milljón Bandaríkjadala eftir einungis fjóra mánuði. Hann setti upp vefsíðu með milljón auglýsingum af smæstu gerð, hver auglýsing er ekki nema einn díll að stærð. Nú hafa fjárkúgarar sent honum hótunarbréf og kæft vefinn með tölvupóstum og upplýsingaflóði svo vefsíðan lá niðri í viku.

Netglæpamennirnir sendu honum tölvupóst þar sem þeir fóru fram á 5 þúsund Bandaríkjadali. Tew svaraði póstinum ekki og í kjölfarið datt vefurinn niður. Fjárkúgararnir hafa síðan sent fleiri hótunarpósta og fara þeir nú fram á 50 þúsund Bandaríkjadali.

Fréttavefur BBC skýrir frá því að búið er að setja bæði Bandarísku Alríkislögregluna, FBI, í málið og tölvubrotadeild bresku lögreglunnar. „Þá grunar að árásin sé uppruninn í Rússlandi, en það hefur ekki verið hægt að rekja tölvupóstana til uppruna síns,” sagði Tew.

Tew hefur þurft að kaupa þjónustu fyrirtækis sem síar út ruslpóstinn, en það hefur hægt örlítið á vefsíðunni fyrir notendur.

Það er orðið töluvert vandamál í tölvuheiminum að netglæpamenn ráðist á vefsíður og hóti að kæfa þær í gagnslausu upplýsingaflóði ef lausnargjald er ekki innt af hendi. „Saklausar” tölvur út um allan heim eru notaðar til verksins. Bófarnir senda út tölvuvírus sem breiðist út um heiminn og síðan nota þeir sýktar tölvur og netföngin þeirra til að senda örlítið brot af upplýsingaflæðinu til fórnarlambanna.

Milljóndalavefsíðan

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert