Lét fjarlægja liminn tveimur vikum eftir ígræðslu

Kínverskur maður sem fyrstur manna lét græða á sig getnaðarlim lét fjarlægja hann tveimur vikum síðar vegna ,,alvarlegs, sálræns kvilla" að því er læknablaðið European Urology greinir frá. Upphaflegur limur mannsins hafði farið svo illa að skurðaðgerð gat þar engu breytt og gat hann ekki pissað eða haft samfarir. Læknar við spítala í Guangzhou græddu á hann getnaðarlim í fyrra af heiladauðum manni en urðu að fjarlægja hann aftur tveimur vikum síðar.

Ástæðan var sú að maðurinn og eiginkona hans áttu erfitt með að venjast limnum. Þó gat maðurinn pissað án vandræða og líkami mannsins hafnaði ekki limnum. Þó svo þessi maður sé sá fyrsti sem græddur er á getnaðarlimur annars manns hefur fjöldi karla látið græða á sig sinn eigin lim á ný eftir slys víða um heim. Skurðlæknirinn Jean-Michel Dubernard, sem framkvæmdi ásamt öðrum fyrstu andlitágræðslu heims í fyrra, segir sjúklinga finna til sálrænna kvilla eftir að fá nýja líkamshluta. Erfitt sé að nota líkamshluta látins fólks eða líta í spegil og sjá andlit annarrar manneskju.

Dubernard segir þó að í tilfelli Kínverjans hafi konan hans átt þátt í máli en ekki ljóst hvað olli. Það hafi komið fyrir að fólk verði afneiti nýjum líkamshlutum og það hafi til að mynda gerst í tilfelli Nýsjálendings sem taka þurfti af nýágrædda hönd þar sem honum þótti hún visin og ljót.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert