Samtök sjúklinga með legslímuflakk stofnuð

Síðastliðinn föstudag, 20. október, voru stofnuð íslensk samtök sjúklinga með endometriosis, eða legslímuflakk eins og sjúkdómurinn kallast á íslensku. Stofnfundurinn var fjölmennur og gengu 52 einstaklingar í samtökin. Ása María Björnsdóttir-Togola var kjörin formaður en með henni í stjórn eru fimm aðrir einstaklingar.

Sambærileg samtök eru starfandi á hinum Norðurlöndunum og var formaður dönsku samtakanna, Endometriosis foreningen, Hanne Vedsted-Hansen, stödd hér á landi til að aðstoða við stofnun samtakanna hér. Fyrirhugað er að íslensku samtökin standi að gerð fræðsluefnis fyrir almenning og fagfólk, bæði með því að starfrækja vefsetur og gefa út bæklinga til að auka skilning á sjúkdómnum og aðstoða þá einstaklinga sem greinast með hann.

Á vef Landlæknisembættisins kemur fram að legslímuflakk (endometriosis) er yfirleitt góðkynja sjúkdómur sem lýsir sér í að vefur sem líkist legslímhúð finnst í líkamanum utan legsins í konum. Oftast er þennan vef að finna í kviðarholinu, á lífhimnunni eða á eggjastokkunum og eggjaleiðurunum. Sjúkdómurinn veldur bólgubreytingum í líkamanum sem geta skemmt innri kynfæri kvenna og lagst á nálæg kviðarholslíffæri.

Sjúkdómnum fylgja oft miklir verkir í kviðarholi, einkum við blæðingar, mikil viðvarandi þreyta og getur sjúkdómurinn leitt til ófrjósemi. Talið er að um 6% allra kvenna geti borið í sér sjúkdóminn en líkur benda til að 3000–4000 konur á Íslandi séu haldnar honum.

Þekking á eðli og orsökum sjúkdómsins hefur verið að aukast síðastliðinn áratug en oft getur liðið langur tími, allt að 7 ár, frá því einkenni byrja þar til endanleg sjúkdómsgreining liggur fyrir. Á þessu tímabili er oft gripið til endurtekinna skurðaðgerða og dýrrar lyfjameðferðar til að bæla niður einkenni og stundum þarf að grípa til dýrra tæknifrjóvgunarmeðferða vegna ófrjósemi. Mikil þörf er á að bæta greiningu og meðferð sjúkdómsins, að því er segir á vef Landlæknisembættisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert