Lögbann sett á YouTube í Tyrklandi

YouTube er einn vinsælasti vefur heims, en verður æ umdeildari
YouTube er einn vinsælasti vefur heims, en verður æ umdeildari Reuters

Tyrkneskur dómstóll hefur fyrirskipað að aðgangi að vefsíðunni YouTube skuli lokað í landinu í vegna myndskeiða sem þykja móðgandi fyrir Mustafa Kemal Ataturk, sem talinn er faðir Tyrklands nútímans.

Paul Doany, yfirmaður Turk Telekom, stærsta fjarskiptafyrirtækis landsins, segir að hjá Turk Telekom hafi þegar verið farið eftir úrskurðinum, en þegar vefsíða YouTube er heimsótt koma upp skilaboð um að ekki sé hægt að sækja síðuna frá Tyrklandi. Mikill meirihluti tyrkneskra netnotenda er í viðskiptum við Turk Telecom.

Undanfarnar vikur hefur staðið yfir „sýndarstríð” Tyrkja og Grikkja, sem hafa til skiptis sett inn myndskeið á vefinn vinsæla þar sem lítið er gert út hinum aðilanum. Yfirlýsingar um samkynhneigð Tyrkja og Mustafa Kemal Ataturk, stofnanda tyrkneska lýðveldisins, munu hafa orðið til þess að lokað var á vefsíðuna.

Mikið hefur verið fjallað um málið í tyrkneskum fjölmiðlum. Fréttastöðin CNN í Tyrklandi birti á forsíðu vefjar síns tengil þar sem hægt var að senda YouTube kvörtun og sagði dagblaðið Hurriyet frá því í dag þúsundir Tyrkja hafi skrifað til YouTube, sem hafi aftur fjarlægt myndskeiðin sem kvartað var undan.

Engu að síður er vefurinn nú útlægur frá Tyrklandi þar til dómstólar ákveða annað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert