Hundruð milljóna ljósára „neind“ uppgötvast úti í geimnum

Jafnvel stjörnufræðingar eiga erfitt með að gera sér í hugarlund gríðarlegt tóm sem þeir hafa uppgötvað úti í geimnum, þar sem er hvorki hefðbundið efni eins og vetrarbrautir og stjörnur né hið dularfulla „dimma efni“ sem ekki sést á hefðbundinn hátt með sjónaukum. Þessi stóra „neind“ er hátt í milljarður ljósára í þvermál.

Neindin kom fram í gögnum sem fengust við skoðun á geimnum á útvarpsbylgjulengdum. Frá þessu er greint í tímaritinu Astrophysical Journal, að því er BBC greinir frá. Það voru vísindamenn við Háskólann í Minnesota sem gerðu þessa uppgötvun.

Haft er eftir einum þeirra, Lawrence Rudnick: „Jafnvel stjörnufræðingar eiga erfitt með að gera sér í hugarlund hversu stórt þetta [tóm] er. Það myndi taka nokkur ár að fara frá jörðinni til næstu stjarna í okkar vetrarbraut ef ferðast væri á ljóshraða, en ef maður færi enda á milli í þessu tómi tæki það milljarð ára.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert