Þriðjudagur, 26. maí 2009

Ragnar Heiðar Sigtryggsson

Ragnar Heiðar Sigtryggsson fæddist á Akureyri 26. maí 1925. Hann lést á heimili sínu, Kjarnagötu 14 á Akureyri, 31. mars 2009. Hann var sonur hjónanna Önnu Lýðsdóttur, f. á Skriðnesenni í Bitrufirði í Strandasýslu 1.9. 1893, d. á Akureyri 8.9. 1988 og Sigtryggs Sigurðssonar, f. að Hamri í Rípuhreppi á Hegranesi í Skagafirði 30.4. 1889, d. á Akureyri 2.2. 1950. Bræður Ragnars: Lýður, f. í Hrísey 6. júlí 1920, d. í Ósló 16. sept. 1983 og Hermann, f. á Akureyri 15. jan. 1931. Ragnar kvæntist 22.6. 1965 Sonju Gunnarsdóttur, f. 27.2. 1940. Hún er dóttir Gunnars Sigþórssonar, f. 1.9. 1913, d. 26.6. 1980 og Kamillu Karlsdóttur, f. 4.8. 1922, d. 14.6. 1968. Börn Ragnars og Sonju eru: 1) Ragnheiður, f. 27.4. 1965. Maki Auðun Benediktsson, f. 25.5. 1942. Börn þeirra Kamilla Kristín, f. 22.1. 1989 og Anna María, f. 20.4. 1991. 2) Sigtryggur, f. 17.10. 1966. Fyrrv. samb.kona Ólöf Sigurðardóttir, f. 2.2. 1966. Börn þeirra Ragnar Heiðar, f. 6.4. 1987 og Hermann Knútur, f. 12.9. 1989. 3) Kamilla, f. 21.12. 1967. Maki Ragnar Þór Björnsson, f. 21.8. 1967. Börn þeirra Stefán Björn, f. 13.3. 1990, unnusta Sigrún Birna Guðjónsdóttir, f. 19.2. 1990, Kristín, f. 2.7. 1992 og Aðalsteinn, f. 2.7. 1996. 4) Hermann Lýður, f. 13.10. 1973. Samb.kona Elín Björg Ragnarsdóttir, f. 22. 2. 1971. Sonur hennar Ísak Freyr Elínarson, f. 29.7. 2003. Sonur þeirra Hilmar Elías, f. 31.1.2007. Fyrrv. samb.kona: Gígja Vilhjálmsdóttir. Dóttir þeirra Ylfa Eik, f. 23.9. 1994 5) Borgar, f. 10.12. 1975. Barn Ragnars og Stefaníu Sigurðardóttur er Sigurður, f. 27.4. 1956, Maki Bjarney Jóný Bergsdóttir, f. 9.8. 1958. Börn Ragnars og Bjarneyjar Arinbjörnsdóttur, Arna Brynja, f. 28.11. 1957. Sonur hennar Bjartmar Örnuson, f. 28.7. 1988. Anna, f. 26.2. 1962. Maki Guðmundur Sigurðsson, f. 6.12. 1963. Börn þeirra, Sigurður, f. 7.1. 1986, Bjarni, f. 29.9. 1988, Arinbjörn Ingi, f. 1.8. 1995 og Hera, f. 29.9. 1998. Börn Sonju Gunnarsdóttur, maka Ragnars: Guðrún Friðjónsdóttir, f. 11.4. 1959, maki Aðalsteinn Árnason, f. 2.7. 1957. Börn þeirra Sonja Rut, f. 26.8. 1982, samb.maður Guðmundur Már Ketilsson, f. 25.7. 1978. Börn þeirra Anita Mist, f. 7.2. 2004 og Aron Freyr, f. 26.11. 2007. Sandra Björk, f. 28.2. 1986. Samb.maður: Freyr Gústafsson, f. 22. 5. 1987. Sonur þeirra Rúnar Breki, f. 4.2. 2009. Gunnar Jónsson, f. 26.4. 1961. Maki Sigrún Gunnarsdóttir, f. 1.11. 1961. Dóttir hennar Laufey Óladóttir, f. 19.12. 1983. Samb.maður Rúnar Gunnarsson, f. 16. des. 1982. Dóttir þeirra: Heba Dröfn, f. 1.1. 2009. Börn Gunnars og Sigrúnar, Sonja Gunnarsdóttir, f. 7.5. 1989 og Fríður Gunnarsdóttir, f. 9. júlí 1990. Ragnar ólst upp á Akureyri. Var þar í barnaskóla, stundaði nám við Iðnskólann, lærði húsgagnabólstrun hjá Karli Einarssyni, lauk sveinsprófi í iðninni 1950 og öðlaðist meistararéttindi í húsgagnabólstrun 1953. Ragnar stundaði húsgagnabólstrun lengst af á Akureyri. Ragnar hætti bólstrun af heilsufarsástæðum 1975 og vann eftir það hjá Ullarverksmiðju SÍS og var síðan lagerstjóri á Niðursuðuverksmiðju K. Jónssonar & Co. þar til hann varð sjötugur. Er Ragnar var sjötíu og tveggja ára fór hann til sjós og var „messagutti“ á frystitogaranum Kleifarbergi ÓF 2. Stundaði hann sjóinn fram á 82. aldursár, þegar hann varð að hætta vegna veikinda. Útför Ragnars fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 8. apríl, kl. 13.30.
Elsku pabbi.

Þú hefðir átt afmæli í dag ef þú værir enn hjá okkur. En nú ert þú á góðum stað þar sem við vitum að þér líður vel. Okkur langar að þakka þér fyrir að taka okkur að þér þegar við vorum nánast með bleyju og ala okkur upp sem þín eigin börn. Við fundum aldrei fyrir því að við værum ekki þín blóðbörn þó svo að í hópinn okkar bættust 5 frábær systkIni. Okkur langar til að segja svo margt en það kemst ekki fyrir í texta frá okkur pabbi minn. Þetta fallega ljóð, Föðurminning, segir allt sem segja þarf.

Englar Guðs þér yfir vaki og verndi pabbi minn
vegir okkar skiljast núna, við sjáumst ekki um sinn.
En minning þín hún lifir í hjörtum okkar hér
því hamingjuna áttum við með þér.

Þökkum kærleika og elsku, þökkum virðingu og trú
þökkum allt sem af þér gafstu, okkar ástir áttir þú.
Því viðmót þitt svo glaðlegt var og góðleg var þín lund
og gaman var að koma á þinn fund.

Með englum Guðs nú leikur þú og lítur okkar til
nú laus úr viðjum þjáninga, að fara það ég skil.
Og þegar geislar sólar um gluggann skín inn
þá gleður okkur minning þín, elsku pabbi minn.

Vertu góðum Guði falinn er hverfur þú á braut
gleði og gæfa okkar fylgdi með þig sem förunaut.
Og ferðirnar sem fórum við um landið út og inn
er fjársjóðurinn okkar pabbi minn.
                (Denver/Guðrún Sigurbjörnsdóttir.)

Hvíl í friði elsku pabbi.

Þín börn
Guðrún og Gunnar

Kveðja frá Knattspyrnufélagi Akureyrar
Ragnar Sigtryggsson, Gógó, er okkur eldri KA félögum mjög minnisstæður. Hann var virkur knattspyrnumaður í félagi okkar um áratuga skeið. Byrjaði 15 ára að spila með meistaraflokki KA 1940 og var einn af máttarstólpum liðsins fram til 1962 og þá einnig meistaraflokks ÍBA sem var sameiginlegt lið félaganna í bænum um nokkurt skeið. Þá spilaði hann með öllum yngri aldursflokkum KA.

Lengst af lék hann sem hægri innherji en á löngum knattspyrnuferli lék hann nánast allar stöður á vellinum. Þó lagði hann aldrei í það að setja upp markmannshanskana, þótti víst of stuttur í það starf. Um tíma var það reyndar mjög áberandi hversu framlínumenn ÍBA voru lágvaxnir, sérstaklega þegar þeir spiluðu saman KA félagarnir Baldur Árnason, Björn Ólsen, Gógó og bróðir hans Hermann.
 

Einu sinni gerðist það í leik að Haukur Jakobsson braust upp kantinn og gaf, að sínu viti, ágæta sendingu fyrir markið. Boltinn sveif í glæsilegum boga yfir höfðum félaga hans en enginn þeirra var nógu hávaxinn til að geta nýtt sér færið. Þá gall í Ragnari, sem þótti allra manna orðheppnastur og mestur æringi: „Geturðu ekki gefið tuðruna með jörðinni svo við getum skallað hana?“

Á fertugsaldri var Gógó valinn í landslið Íslands í knattspyrnu fyrstur Akureyringa, en áratug fyrr hafði hann æft með landsliðinu án þess þó að spila með því í opinberum landsleik.

Þegar hann var valinn í landsliðið 1957 var hann fararstjóri ásamt Hermanni bróður sínum, Rebekku konu hans, Þórarni Guðmundssyni ofl. fyrir um 80 manna hópi eldri og yngri KA manna í keppnisferð í knattspyrnu, sundi og frjálsum íþróttum til Keflavíkur, Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. Þegar hópurinn var staddur í Keflavík fékk Gógó tilkynningu um að hann hefði verið valinn í landsliðið. Þetta var hápunkturinn á stórgóðri ferð og fékk hópurinn að sjá Gógó spila hans eina landsleik. Þetta var leikur við Belga í HM og fékk Gógó mjög góða dóma bæði í pressunni og meðal vallargesta.

Í þessari ferð kynntumst við pollarnir Gógó enn betur en áður og nú sem alltaf var hann einstaklega natinn og vinsamlegur í okkar garð og gaf sér tíma til að sinna okkur. Ég leit upp til hans, vildi vera sem næst honum og sleppti ekki neinu tækifæri til að heilsa upp á hann.

Þegar ég var um fermingaraldur vann ég sem sendill í Nýju kjötbúðinni. Þurfti ég þá alloft að fara með sendingar inn í innbæ. Á þeim tíma vann Gógó við bólstrun í Hafnarstræti 25 stutt frá Höpfner. Kom ég þá alltaf við hjá honum á leiðinni inneftir bara til að spjalla og stundum jafnvel bara til að sjá hann. Man ég eftir því að vinnuveitandi minn hafði einu sinni á orði að það væri skrítið hvað ég hefði verið lengi í einni ferðinni. Hafði ég þá komið við hjá Gógó í báðum leiðum. Það gæti hafa verið í þeirri ferð, sem ég ámálgaði við Gógó, hvort hann gæti ekki tekið mig á samning í bólstrun. Hafði ég þó ekki neinn sérstakan áhuga á að verða bólstrari, en þarna sá ég leið til að geta verið mikið með honum ef hann tæki mig á samning í fjögur ár. Lýsir þetta atvik, sem gerðist fyrir um hálfri öld, hvað maður leit mikið upp til hans, ekki eingöngu sem knattspyrnumanns, heldur einnig sem einstakrar persónu.

Annað atvik, mikið nýrra lýsir honum einnig og staðfestir jafnframt það fyrra. Eins og flestir vita var hann á sjónum fram á nýræðisaldur. Fyrir um þrem árum var hann í landi, þegar herrakvöld KA var haldið á Hótel KEA. Fórum við saman á skemmtunina og ætlaði ég nú heldur betur að rifja upp gamlar sögur og atvik og rabba um allt og ekkert. Í stuttu máli fór þó svo að við vorum aldrei einir allt kvöldið því það var biðröð við borðið, allir þurftu að tala við gamla manninn og spjalla við hann. Lét ég þau orð falla þegar 3-4 biðu að þeir þyrftu að taka númer til að fá áheyrn. Lýsir þetta, að ekkert hafði breyst á þessari hálfu öld, hann var alltaf jafn vinsæll. Í þessu sambandi held ég að ég geti sagt að Gógó var í huga okkar KA manna eins og Þórólfur Beck var fyrir KRinga og Lolli fyrir Valsmenn, hálfgerð þjóðsagnapersóna.

Auk knattspyrnunnar stundaði Gógó fleiri íþróttagreinar og keppti m.a. fyrir félag sitt í handbolta og frjálsum íþróttum. Hann tók mikinn þátt í félagsmálum og var um ártuga skeið starfsmaður skíðamóta, sund- og frjálsíþróttamóta sem haldin voru á Akureyri. Þá tók hann þátt í leikstarfsemi hjá Leikfélagi Akureyrar og hjá KA þegar félagið setti upp barnaleikritið Línu Langsokk, 1961.

Eins og margir vita, lék hann yfirleitt í skyrtu nr.10 á knattspyrnuvellinum. Veit ég að hann verður í þeirri skyrtu þegar hann fer að sóla menn á nýjum stað og þá jafnvel með KA mönnunum Lilla Kobba, Jóni Stef, Steina Þórarins og Bjössa Gunnars ofl. Verður þetta ekki árennilegt lið og eins víst að það verða sagðar margar góðar sögur fyrir og eftir leik. Vonast ég til að hann verði með bæði gullmerki KA og KSÍ þegar þeir taka sýningarleik.

Gógó var mikill fjölskyldumaður og átti mörg börn. Var fjölskyldan honum mikils virði og samband hans við Sonju og börnin þeirra bæði mikið og fallegt þannig að eftir var tekið. Núna á síðustu vikum og mánuðum, í erfiðum veikindum Gógós var hann umvafinn fjölskyldunni og var hugsað um hann heima allan sólahringinn.
Að lokum vil ég f.h. KA færa Sonju og allri fjölskyldunni okkar innilegustu samúðarkveðjur og við minnumst alls þess með þakklæti sem Gógó gerði fyrir félagið.

Fh. Knattspyrnufélags Akureyrar,

Stefán Gunnlaugsson, formaður