„Vanir að vinna þessar vítakeppnir saman“

Andri Fannar í leiknum gegn sínum gömlu félögum í KA …
Andri Fannar í leiknum gegn sínum gömlu félögum í KA í kvöld. Mbl/Skapti Hallgrímsson.

Valsmaðurinn Andri Fannar Stefánsson og KA-maðurinn Davíð Rúnar Bjarnason voru í eldlínunni þegar KA og Valur áttust við í undanúrslitum Borgunarbikarsins í kvöld. Þeir sem ekki vita það þá ólust þeir upp í sömu götu, í Espilundi 4 og 5 á Akureyri.

Báðir spiluðu þeir með KA upp alla yngri flokkana og urðu Íslandsmeistarar með 3. flokki félagsins haustið 2007. Í kvöld voru þeir andstæðingar í fyrsta skipti og var það Andri Fannar sem hafði betur þar sem Valur vann KA 6:4 eftir vítaspyrnukeppni.

Gefum Andra Fannari orðið. ,,Við vorum vanir að vinna þessar vítakeppnir saman. Við unnum Þór í undanúrslitum Íslandsmótsins í 3. flokki og svo unnum við tvisvar úti í Blackpool á æfingamóti. Við vorum bestir þegar við spiluðum saman á miðjunni með KA“ sagði Valsmaðurinn dreyminn á svip. „Davíð Rúnar var alltaf betri en ég í sjö manna boltanum en þegar hann fótbrotnaði í 4. flokki þá tók ég við keflinu.“

En hvernig var að vera andstæðingur KA í þessum leik?

„Það var geðveik stemning í stúkunni og gaman að spila leikinn. Það er alltaf gott að koma heim og nú er gaman að sjá hvað er í gangi í félaginu. KA-liðið sýndi það í þessum leik að þeir eiga alveg erindi ofar. Leikurinn var mjög erfiður sem við vissum alveg fyrir. Við vorum vel undirbúnir og vorum búnir að fara vel yfir lið KA,“ sagði Andri og hélt áfram.

„Það var vont að fá þetta mark á sig svona strax en jafn gott að jafna leikinn fyrir hlé. Það var lykilatriði. Við fengum svo nokkur færi en tókst aldrei að opna KA-vörnina upp á gátt. Það strandaði mikið á Davíð Rúnari sem var klárlega besti maður vallarins í leiknum. Þótt við höfum verið meira með boltann og átt fleiri færi þá var þetta alltaf 50/50 í framlengingunni og vítakeppninni. Ég er bara feginn að við unnum á endanum,“ sagði Andri Fannar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert