Pedersen á leið til Viking

Patrick Pedersen í leik með Val í sumar.
Patrick Pedersen í leik með Val í sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Valsmenn hafa samþykkt tilboð frá norska úrvalsdeildarliðinu Viking í danska sóknarmanninn Patrick Pedersen sem varð markakóngur Pepsi-deildarinnar í sumar. Þetta kemur fram á vefsíðunni fótbolti.net.

„Það eru búnar að vera lengi viðræður við Viking Stavanger vegna Patrick Pedersen og það hafa mörg tilboð komið. Í dag er komið samkomulag á milli félaganna, með þeim fyrirvara að leikmaðurinn standist læknisskoðun hjá Viking og semji um sín launakjör þar," sagði Sigurður K. Pálsson, stjórnarmaður hjá Val við Fótbolta.net í dag.

Talið er að Viking greiði Valsmönnum nálægt 30 milljónum króna fyrir Danann snjalla.

Pedersen er ætlað að fylla skarð landsliðsmannsins Jóns Daða Böðvarssonar sem er farinn til þýska B-deildarliðsins Kaiserslautern en með Viking leika þeir Björn Daníel Sverrisson og Steinþór Freyr Þorsteinsson en Indriði Sigurðsson yfirgef félagið á dögunum og er genginn í raðir KR.

Pedersen er þessa dagana staddur í fríi í Egyptalandi en snýr aftur á laugardagskvöld og í framhaldinu er ætlunin að hann gangi frá samningi við Viking um sín persónulegu kjör.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert